152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[10:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu sem snýr að endurhæfingarþættinum. Já, þetta snýr allt að því að við náum samningum. Það ferli er hafið. Ég hef sjálfur fundað með sjúkraþjálfurum, Félagi sjúkraþjálfara, og ég hef lagt á það áherslu að við náum samningum, ekki bara við sérfræðilækna, og reynum að ná annarri nálgun en verið hefur í þessum ramma, í samningagerðinni og í ramma fjárlaga, af því að við þurfum að horfa á þessa samvinnu í heild og ekki síst í samhengi við allt það umfang sem á sér stað á Landspítala. Þetta þarf allt að vinna saman og endurhæfing og forvarnir hljóta að vera áhersluatriði í öllu þessu samhengi. Þannig að samhliða því að við erum að fara í þetta samtal við sérfræðilækna erum við í samtali við sjúkraþjálfara.