152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnaaðgerðir.

[10:46]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það brá mörgum í liðinni viku þegar hæstv. heilbrigðisráðherra tilkynnti framlengingaráætlun ríkisstjórnarinnar á sóttvarnaaðgerðum. Síðan þá er búið að gera einar tvær breytingar. Síðast var fallið frá 1 metra reglunni svokölluðu í gær. Þetta er allt orðið hin mesta furða. Kæri hæstv. heilbrigðisráðherra, er ekki rétt að láta þetta gott heita? Morgundagurinn held ég að væri prýðisdagur til að aflétta öllum þessum ákvörðunum. Það eru fluttar fréttir af því núna að Ísland reki lestina í afléttingum, land sem stærir sig af því að hafa bestu stöðuna í Evrópu. Á meðan eru fyrirtæki að engjast um, núna síðast út af þessum hringlandahætti. Ég fékk í gær send skilaboð frá atvinnurekanda sem lýsti því þannig, með leyfi forseta: „Ég upplifi þvílíkan rugling og misskilning hjá fólki, enda er varla þornað blekið á einni reglugerðinni áður en sú næsta tekur gildi. Þegar maður setur sig inn í þetta með raunveruleg dæmi þá er þetta þvílíka ruglið og stendur ekki steinn yfir steini í reglunum.“ Þetta er upplifun þeirra sem eru að reyna að reka fyrirtæki í landinu.

Ríkisstjórnin finnur sig núna í þeirri stöðu að vera að hrekjast út í horn, hrekjast úr hverju virkinu á fætur öðru. Hæstv. heilbrigðisráðherra, þú hefur stöðu til að kippa þessu í lag. Nú er tími til kominn að gamli þjálfarinn stígi fram og setji liðið sitt í stand og í röð og hætti þessari vitleysu. Kemur það til greina, hæstv. heilbrigðisráðherra, að kippa þessu bara í lag með einu pennastriki?

(Forseti (OH): Forseti minnir þingmenn á að beina orðum sínum til forseta en ekki beint til hæstv. ráðherra.)