152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

yfirvofandi orkuskortur.

[11:06]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Það væri mjög gott ef þetta væri bara út af slæmu vatnsári. Það myndi nefnilega lágmarka vandann mjög mikið. En það er ekki bara það því sem betur fer, og það er gott, er eftirspurnin eftir grænni orku að aukast. Spurning hv. þingmanns er þessi: Er ekki hægt að gera eitthvað og verður það ekki gert? Ef það er hægt að gera eitthvað þá verður það gert. Það liggur alveg fyrir. Orkustofnun hefur beint tilmælum, sem hún hefur aldrei gert áður, hún gerði það 25. janúar, til Landsvirkjunar, vegna yfirstandandi söluferlis á heildsölurafmagni vegna umframeftirspurnar, um að einungis mætti endurselja orkuna til söluaðila sem væru að þjónusta almenning, heimili og fyrirtæki. Það var eitt af því sem menn gerðu út af þeirri stöðu sem upp er komin núna. Eins og ég nefndi þá er þetta í algerum forgangi. Ég fór ekki í gegnum öll þau frumvörp sem ég er að leggja hér fram núna nákvæmlega út af þessum málum, nákvæmlega út af þessu stóra verkefni. Það er verið að vinna eins hratt eins og hægt er (Forseti hringir.) en eðli málsins samkvæmt þurfa menn, stjórnvöld, ráðherra, eftirlitsaðilar, að fara eftir lögum og reglum. Ef hins vegar vantar eitthvað upp á heimildir (Forseti hringir.) þá beitum við okkur fyrir því að því verði breytt og ég vænti góðs samstarfs við þingið út af þeim málum.