152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[17:32]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ítreka bara enn og aftur það sem ég hef sagt: Ef þingmenn koma með betri hugmynd sem stenst stjórnskipan okkar og lögfræðingar okkar geta verið sammála um, þá er ég svo sannarlega tilbúin að hlusta. Ég fagna því bara að það frumvarp sem hér var nefnt komi fram á þinginu og fari í þinglega meðferð.

En bara til að ítreka þá umræðu sem var hér í kringum endurskoðun á sóttvarnalögum á sínum tíma þá er ástæðan fyrir því að þetta er skrifað inn í lögin sú að talið er að bregðast þurfi við með mjög skjótum hætti. Ég vísaði í ræðu minni áðan í gjaldeyrishöft. Það er að einhverju leyti sambærilegt. Það eru einhver ákvæði sem þarf að taka, þá utan markaðar, með mjög skömmum hætti. Þess vegna notaði ég sömu nálgun og við höfum gert í þinginu varðandi það mál og það er sú tillaga sem ég legg hér fram á borðið og legg til að við ræðum. Ég ítreka enn og aftur að ef komið er með aðra hugmynd sem er enn betri þá er ég svo sannarlega til í að hlusta. Stóra málið er auðvitað að sóttvarnalög standi og við getum brugðist við hættum sem upp koma en á sama tíma viljum við tryggja lýðræðislegt umboð og lýðræðislega umræðu.