152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég get bara verið býsna sammála honum. Ég furða mig bara á því af hverju hann hafi ekki gengið í minn flokk frekar en Viðreisn. Við erum greinilega mjög sammála í þessu. En ég fagna líka þessari orðræðu hér. Eftir að hafa starfað á vettvangi stjórnmálanna í alllangan tíma verð ég því miður að viðurkenna að þetta tal virðist vera mjög víða úti í samfélaginu um að pólitík sé einhvern veginn óhrein, að það sé eitthvað óæskilegt við að taka samræður yfir á pólitískan vettvang og þar af leiðandi sé eitthvað neikvætt við pólitískar ákvarðanir. Það er kannski sá andi sem birtist í þeirri setningu sem hv. þingmaður las hér og er víst í greinargerð með frumvarpinu og er væntanlega þá úr skýrslu þeirrar nefndar sem skrifaði þetta. Ég og hv. þingmaður höfum til að mynda orðið vör við þetta í umræðu í nefnd þar sem við sitjum: Hvar getur ákvörðun pólitíkurinnar legið?

En mig langaði að spyrja hv. þingmann, af því að ég hef líka aðeins rennt yfir hans frumvarp. Mér finnst það mjög áhugavert og ég vænti þess að þetta verði allt saman tekið til umræðu í nefndinni. En aðeins varðandi það frumvarp sem við ræðum hér, sem ég legg fram og sumu fólki finnst þar ekki nógu langt gengið og ég er tilbúin að taka það samtal, að ég vil ítreka og minna á að þar er þó verið að setja það inn að ef ráðherra setur reglugerð þá skuli fyrst ræða við nefndina. Það er ekkert með að sú reglugerð eigi að vera í gildi í einhvern ákveðinn langan tíma. Þannig að ég sé þá að það er eitthvað sem greinir þetta frumvarp frá því sem hv. þingmaður flutti, að þar er verið að tala um langtímaáhrif, þ.e. þegar ástand hefur varað í einhvern langan tíma. Það má því líka velta því fyrir sér: Er það nægjanlega langt gengið að við þurfum þá að bíða í kannski þrjá mánuði í einhverju ástandi áður en þingið fær þá einhverja aðkomu að slíkum ráðstöfunum?