152. löggjafarþing — 33. fundur,  3. feb. 2022.

sóttvarnalög.

247. mál
[18:38]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er búið að vera fróðlegt að hlýða á þessa umræðu hér. Margoft hefur umræðan þroskast og svo kannski tekið einhverjar dýfur inni á milli en samtalið er mikilvægt eins og komið hefur fram. Ég vil byrja á að þakka framsögumanni, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, sérstaklega fyrir hennar yfirferð á málinu og mér fannst hún gera það vel og margt sem hún sagði sem gerði mig talsvert rórri með það sem þarna er og hver hugsunin væri með tillögunni. Það er líka mikilvægt sem hún nefndi hér að upplýsingagjöfin til þingsins hefur verið góð í gegnum faraldurinn og fyrir okkur sem höfum fylgst með þá vitum við að fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur til að mynda gefið alla vega tíu sinnum skýrslu til þingsins um málin og alltaf var hún boðin og búin að mæta fyrir velferðarnefnd til að fara yfir málin líka. Ég er ánægður að sjá að núverandi heilbrigðisráðherra er að feta sömu leið í þeim efnum og fer vel af stað með þetta samráð og samtal við þingið og þá sem eftir því kalla. Það er vel og skiptir miklu máli og ég vil halda því sérstaklega til haga.

Eins og fram hefur komið líka og kom fram hjá framsögumanni þá var framan af faraldrinum sérstaklega lagt upp úr því að pólitíkin fólst í því að hlustað var á vísindamenn, það var svolítið í forgrunni, frekar en að einstakir pólitíkusar væru að nýta sér sviðsljósið og stíga fram eins og við sáum í mörgum öðrum löndum og hefur gengið misvel og þótti ekki alls staðar góður bragur á og það varð ekki til þetta traust sem þarf að verða hjá almenningi gagnvart heilbrigðisyfirvöldum, gagnvart bólusetningum t.d. og á hinu og þessu sem tengist þessu. Það tókst að byggja upp traust og gott utanumhald og fólki leið vel með það sem verið var að gera. Það var verið að reyna að gera það besta úr aðstæðum hverju sinni og andlitin sem við sáum bera það fram stuðluðu sannarlega að því. Ég held að það sé ein ástæða fyrir því að hlutirnir hafa tekist þó þetta vel hjá okkur, ég nefni líka bólusetningarhlutfallið sem við höfðum náð hér af frjálsum vilja með fólki. Ég nefndi það fyrr í dag hvernig það var að upplifa umræðu á Evrópuráðsþinginu í síðustu viku um einmitt það hvernig það hefur gengið misvel í nágrannalöndum okkar og Evrópulöndum að byggja upp þetta traust sem skiptir svo miklu máli til að geta verið í þeirri stöðu sem við erum í núna, að vera sem betur fer að fara inn í tímabil afléttinga og breytinga og færa hluti til eðlilegra horfs á ný.

Það er líka rétt sem hefur komið núna fram að þetta hefur dregist á langinn. En við erum líka búin að vinna ýmsa sigra á leiðinni, eins og ég nefni með bólusetningarnar og slíkt. Aðstæður eru að breytast og það kallar á nýjar ákvarðanir og nýjar nálganir og kannski öðruvísi samtal um þær. Það er vel og við eigum það samtal m.a. hér þótt ég sjái kannski ekki fyrir mér að þingið sem slíkt breytist nánast í málstofu um sóttvarnaaðgerðir. Þó að við tökum umræðu og við séum löggjafarvaldið og komum að með ýmsum hætti þá erum við hér ekki 63 heilbrigðisráðherrar eða sóttvarnalæknar sem vinna verkin en hins vegar veitum við að sjálfsögðu aðhald og tökum umræðuna og fylgjumst með og fylgjum eftir ákvörðunum.

Það var eitt sem ég var að velta fyrir mér. Eitt er náttúrlega tillagan sem slík og síðan er það greinargerðin. Það er mikilvægt að horfa til mannréttinda og með hvaða hætti og með hversu skömmum fyrirvara er hægt að ráðast í skerðingar á mannréttindum og slíku. Í hverju felast þær? Ég hef svolítið líka verið að draga fram aðrar hliðar á því. Það er ekki bara verið að skerða tækifæri fólks til að hegða sér að vild og jafnvel gæta ekki að sóttvarnaráðstöfunum heldur er líka verið að verja líf og heilsu fólks sem sannarlega er í viðkvæmum hópum og á mikið undir því að veikjast ekki. Og ég vil meina að það sé þá líka, með því að það sé fullt frelsi fólks jafnvel í hættulegum aðstæðum til að hegða sér að vild, verið að skerða frelsi þessa fólks sem er í viðkvæmum hópum og sem verður jafnvel bara að loka sig af. Við erum að skerða þeirra mannréttindi með því að gefa þeim ekki tækifæri til að taka þátt í samfélaginu líka. Við þurfum að vigta þetta saman þegar við erum að tala um frelsi einstaklinganna, bæði hvað við getum gengið langt og hvernig við getum tryggt mannréttindi og líf fólks sem er viðkvæmara.

Annað með tillöguna sem slíka. Mér finnst bara sjálfsagt að við förum yfir þetta og sjáum hvernig við getum núna tekist á við jafnvel enn þá meira og stærra verkefni, þ.e. að taka ákvarðanir og ráðast í aðgerðir til að komast sem best út úr faraldrinum og ná fljúgandi starti áfram inn í nýjan tíma í okkar samfélagi að því loknu. Mér finnst skipta máli hér í tillögunni að það sé horft til þess að það skiptir máli þegar við erum að tala um farsóttir — og það er ekki bara þessi farsótt heldur aðrar sem geta komið upp — að þær eru þess eðlis að það þarf að vera hægt að bregðast skjótt við til að takmarka útbreiðslu þeirra og vernda líf fólks og heilsu. Það er mikilvægt að hægt sé að bregðast hratt við ef því er að skipta. Við eigum mögulega eftir að lenda, því miður, í svona aðstæðum aftur og aftur og þess vegna skiptir máli hvernig við búum þessu umgjörð. Það verður að vera þannig að heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisráðherra, geti strax gripið til ráðstafana, þurfi ekki að bíða svo og svo lengi eftir því að það sé búið að fjalla um það í einhverri málstofu í þinginu áður en hægt er að bregðast við því sem upp kemur og jafnvel með mjög bráðum hætti. Ég legg áherslu á mikilvægi þess. En líka er mikilvægt að það sé gerð góð grein fyrir því sem verið er að gera, það sé réttlætt og rökstutt og þingið geti haft á því skoðun og jafnvel fylgt því eftir eftir þörfum. En við verðum að hafa þessi bráðaliðatækifæri ráðherra og stjórnvalda til að grípa inn í hratt og vel. Síðan þurfa þau að sjálfsögðu að standa skil á því gagnvart þinginu. Það að ætla að negla það alveg niður að ekki sé hægt að grípa inn í án þess að hér verði farið yfir og fjallað um jafnvel þingsályktunartillögur og annað slíkt um þau efni, er svolítið langt gengið gagnvart möguleikanum á því að geta haft þennan viðbragðshraða sem máli skiptir. Hér hefur fólk svo sem verið að tala sig inn í það að það megi ekki verða svo að möguleikar stjórnvalda til að bregðast skjótt og vel við þegar aðstæður koma upp séu takmarkaðir. Ég treysti svolítið á það og í meðförum nefndarinnar þegar farið verður yfir þessa tillögu, og aðrar sem hafa verið nefndar, að þetta sé ávallt haft að leiðarljósi og það verður vonandi niðurstaðan í þeirri vinnu.

Á margan hátt er bara gott að við séum komin á þennan stað í umræðunni, að við séum á fullu að taka samtal um það hvernig við ætlum að keyra út úr þessum aðstæðum, við ætlum samt að fara varlega og vanda okkur og missa stöðuna ekki niður á síðustu metrunum eins og við höfum áður rætt hér. Þessi samstaða skiptir máli. Þá vil ég koma aftur að þessu sem sumir hér í umræðunni hafa talað um að það hafi verið mikilvægt að við höfum hlustað á vísindamenn, það hafa allir sagt það, og líka það að framan af höfum við verið með þá sérstaklega í forsvari, talað fyrir málunum. Ég held að það sé svolítið langt gengið að vilja meina að það hafi verið þægilegt fyrir stjórnvöld. Ég held bara að stjórnvöld hafi borið gæfu til þess að fara þessa leið. Það var þá þægilegt fyrir alla landsmenn að við fórum þá farsælu leið frekar en einhverja aðra. Hún hefur líka skipt máli, sú pólitíska samstaða sem hefur verið hér í þinginu og ég hef tekið eftir. Ég er nýr hér inni en hef tekið eftir síðustu ár, meðan á þessu hefur staðið, að það hefur verið töluvert mikil og góð samstaða hér, þverpólitísk, í þinginu um það sem þarf að gera og um þessar áskoranir. Allt hefur þetta hjálpað til að ná góðum árangri í að fást við veiruna. Það held ég að hafi verið lykilatriði upp á þessa þverpólitísku samstöðu að hafa hlustað á vísindafólkið og líka teflt því talsvert fram, ekki síst í upphafi faraldurs. Það er ekki sjálfgefið að sú samstaða hefði náðst ef sú leið hefði ekki verið farin.

Ég hef svo sem ekki mikið meira um þetta að segja, ég vildi bara reifa þessi sjónarmið. Ég vænti þess að nefndin velti þessu fyrir sér ef málið fer þangað og við verðum áfram farsæl í okkar ráðstöfunum og ákvörðunum sem teknar verða.