Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að tala aðeins um traust. Hér í vor fóru margir stjórnarþingmenn mikinn og ásökuðu fulltrúa stjórnarandstöðunnar um að treysta ekki Ríkisendurskoðun til þess að rannsaka framkvæmd sölu á hlut í Íslandsbanka. Svo ég vitni t.d. í orð hv. þm. Hildar Sverrisdóttur, með leyfi forseta:

„Talandi um traust þá hefur verið með miklum ólíkindum að heyra marga fulltrúa stjórnarandstöðunnar ýja að því að Ríkisendurskoðun sé ekki treystandi til að mæta þeirri rannsókn sinni með sjálfstæði sitt að leiðarljósi af því hvernig rannsóknarbeiðnin kom til.“

Svipuð ummæli voru ítrekað endurtekin í umræðunni þrátt fyrir andmæli stjórnarandstöðunnar um að jú, víst treysti stjórnarandstaðan Ríkisendurskoðun til að rannsaka málið vel innan þeirra valdheimilda sem Ríkisendurskoðun hefur, sem voru fyrirsjáanlega ekki nægar.

Nú kveður við annan tón hins vegar og í fyrradag sagði sami hv. þingmaður og fannst traust til Ríkisendurskoðunar svo mikilvægt, með leyfi forseta:

„Ítarlegar athugasemdir Bankasýslunnar eru allrar athygli verðar. Ef réttar reynast hefur Ríkisendurskoðun ekki staðið nógu faglega að skýrslugerð sinni gagnvart þinginu.“

Hér er verið að velja orð Bankasýslunnar fram yfir orð ríkisendurskoðanda, orð þeirra sem það kom á óvart að margir litlir fjárfestar buðust til að kaupa og vissu ekkert hvað átti að gera í því.

Ég vil ljúka þessari stuttu ræðu á enn einni tilvitnuninni í ofangreindan hv. þingmann frá því síðastliðið vor:

„Það er skylda okkar að í þessu mikilvæga máli verði komist til botns í hvernig til tókst á eins hlutlægan hátt og kostur er.“

Því er ég hjartanlega sammála.