Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[10:44]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum jafn forviða, við varaþingmenn sem nú sitjum á þingi, yfir vinnubrögðum hér. Ég vil líka nefna það sem gerðist síðastliðinn sunnudag þegar ríkisendurskoðandi afhenti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrslu sína um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Það gerði hann í trúnaði að beiðni nefndarinnar svo nefndarmenn gætu kynnt sér skýrsluna áður en til stóð að birta hana. Trúnaðurinn virðist þó aðeins hafa haldið u.þ.b. eins lengi og það tók einhvern nefndarmann að ýta á áframsenda í tölvupóstforriti sínu. Komið hefur fram að ríkisendurskoðandi er ekki í vafa um hvað gerst hafi. Hann telur, með leyfi forseta, „nokkuð öruggt að henni hafi verið lekið af nefndarmanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar“ og bendir á að Ríkisendurskoðun hafi unnið við skýrsluna mánuðum saman án þess að hún rataði til fjölmiðla, en um leið og skýrslan barst nefndinni var hún komin í hendur fjölmiðla. Það blasir við, virðulegi forseti, að Alþingi mun gjalda fyrir trúnaðarbrestinn. Fólk sem á erindi við nefndir þingsins getur ekki treyst þeim, sérstaklega þegar nefndarmenn eru ósköp slakir yfir því að rjúfa trúnað. Fyrir 30 árum eða þar um bil líkti þingmaður og ráðherra starfsháttum á Alþingi við gagnfræðaskóla og hlaut bágt fyrir. Ég held að flestir þeir sem ég var með í Réttó á sínum tíma hafi haldið trúnað lengur og betur en þessi þingmaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem var skjótari en skugginn að skjóta skýrslunni upp í Efstaleiti. Ég held að það blasi við, virðulegi forseti, að Alþingi setur niður við þennan trúnaðarbrest og forseti hlýtur að bregðast við málinu.