Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég held að það hafi verið stór pólitísk mistök af hálfu þáverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna að kalla flugflotann heim. Það voru mikil mistök ef menn hefðu séð fram á aðstæður í dag — þannig er það nú reyndar oft í pólitíkinni að menn sjá ekki allt fyrir. Um leið brýnir þetta okkur að þora að horfa fram í tímann, sem er eiginlega stóra verkefni stjórnmálanna, ekki bara að verja ástandið fyrir heldur líka að þora að horfa fram í tímann og taka skref inn í framtíðina, hafa skoðun á umhverfinu sem við viljum að börnin okkar búi við eftir 10, 20, 30 ár. Hluti af því er að hafa tryggingu í varnar- og öryggismálum. Heimurinn er svo sannarlega breyttur.

Varðandi fjórða þáttinn sem hv. þingmaður nefndi, um Evrópusambandið, þá virði ég að sjálfsögðu þessar skoðanir en tel einfaldlega að betra sé fyrir smáríki að vera í skjóli með öðrum. Við ein og sér gerum ekki mikið, hvort sem það er gagnvart stórum þjóðum eins og Rússum og Kínverjum eða í viðskiptasambandi gagnvart risastórum ofurfyrirtækjum eins og Google, Apple eða Microsoft. Við erum því í meira skjóli í samstarfi og því meira og dýpra sem samstarfið er, því meira öryggi höfum við, annars vegar á sviði varnarmála og hins vegar á sviði efnahagsmála, félagsmála og samfélags. Það er mín sýn og maður þarf kannski að tala betur til fólks varðandi það af hverju svo miklu máli skiptir fyrir okkur Íslendinga að eiga í djúpri samvinnu, taka skrefið sem verður ekki eins stórt og það sem við tókum á sínum tíma með EES-samstarfinu, að fara alla leið á tímum þegar heimurinn er svo sannarlega breyttur. Evrópusambandið er að fara að auka allt öryggis- og varnarsamstarf innan sinna raða. Ég held að enginn þræti fyrir það.