Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2022.

aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum.

22. mál
[17:17]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Ég held ég geti tekið undir margt sem hér kom fram sem er það að við þurfum að eiga í ríkara samstarfi við þjóðir Evrópu, þar með talið Evrópusambandið og þjóðir þar, um margvíslega hagsmuni okkar. Ég hef talað um að við þurfum að horfa á það að móta okkar eigin framtíð saman en ekki láta aðra móta hana fyrir okkur og við þurfum að efla samstarf á mörgum sviðum. Ég heyri líka alveg þá vinda sem blása í Evrópu og innan Evrópusambandsins og áherslur sem þeir eru að horfa til í ljósi breyttra tíma og hræðilegra á köflum. Ég held að það sé hægt að stíga mörg mikilvæg skref í að efla samstarf við aðrar Evrópuþjóðir og Evrópusambandið, m.a. á sviði öryggismála en líka vegna þess við eigum þessi sameiginlegu gildi okkar. En við þurfum hins vegar ekki að eiga aðild til að geta formfest og bætt það samstarf enn frekar. Ef það liggur svolítið fyrir hvar við stöndum, við erum þar sem við erum, og vilji er til að eiga í góðu samstarfi við Evrópusambandið, þá kannski er auðveldara að forma framhaldið en ef við værum að dansa á einhverri brún og vissum ekki í hvorn fótinn við ætluðum að stíga með þetta. Ég held því að við getum sameinast um það að auka enn frekar samstarf Evrópuþjóða, m.a. hvað varðar öryggismál en ekki síst varðandi margvíslegar fjölþáttaógnir.