154. löggjafarþing — 33. fundur,  20. nóv. 2023.

eingreiðsla til eldri borgara.

[15:25]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vara við því að við tökum einhverja eina tölu um hækkun eins liðar í fjárlögum og förum að bera hann með þessu móti saman við annan lið. Það væri alveg eins hægt að taka einhvern allt annan lið sem væri álíka hár og bera hann saman við þær greiðslur sem örorku- og ellilífeyrir eru að hækka um, 4,9% í fjárlagafrumvarpinu sem miðar líka við að það varð 2,5% hækkun um mitt ár. Það er ekki hægt að stroka bara yfir það. Það er hluti af því sen var gripið til á miðju ári til að örorkulífeyris- og ellilífeyrisbætur myndu halda í við kaupmátt. Þess vegna er hækkunin 4,9% og hún miðar við þær breytingar sem orðið hafa á verðlagi.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þingmanni að það þarf að skoða það þegar farið er úr kerfi örorku yfir í kerfi ellilífeyris því þar er sumt fólk að missa talsverðar tekjur. (Forseti hringir.) Það er eitthvað sem ég tek undir með hv. þingmanni að þurfi að skoða betur.