136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Tillaga sú sem hér er til atkvæða er um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof fyrir áramót og kosningar fyrir miðjan febrúar. Við höfum rökstutt tillögu okkar. Hún er um vantraust á ríkisstjórnina. Við viljum að þjóðin fái að kjósa. Við viljum að lýðræðið virki.

Sjálfstæðismenn, þar á meðal varaformaður flokksins, hæstv. menntamálaráðherra, hafa talað um að nú eigi að víkja flokkshagsmunum til hliðar. Það hljómar fallega. En hverjir skyldu nú víkja flokkshagsmunum til hliðar? Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki í kosningar. Þorir ekki að horfast í augu við þjóð sína. Því miður ætlar Samfylkingin að hjálpa honum við það og bjóða þjóðinni áfram upp á Sjálfstæðisflokkinn við völd eftir sautján og hálft ár og hélt ég þó að nóg væri komið.

Ekki er eftir neinu að bíða með að hefja undirbúning að kosningum upp úr áramótum þannig að ný ríkisstjórn með þjóðina að baki sér (Forseti hringir.) geti snúið sér að þeim miklu verkefnum sem fram undan eru á Íslandi. Þessari stjórn mun ekki takast það. Hún muna að þurfa að játa sig (Forseti hringir.) sigraða og aðeins er tímaspursmál hvenær það verður.

(Forseti (StB): Hvað segir þingmaðurinn?)

Þingmaðurinn segir já.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. gesti á þingpöllum að gefa góðan frið hér til starfa.)