143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

lengd þingfundar.

[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér hafa staðið miklar vitnaleiðslur um fundarhaldið í gær og gærkvöldi. Ég tók þátt í þeirri umræðu og sat á forsetastóli lengstan partinn eftir kvöldmat og get vitnað um það sem hér hefur verið sagt, það var nokkur skortur á því að helstu aðstandendur málsins væru til staðar til þess að minnsta kosti að hlusta á sjónarmið og spurningar sem fram komu.

Það er rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að menn ráða því sjálfir hvenær þeir fara í ræðustól. Engu að síður eru til ýmsar gamlar og góðar venjur sem almennt eru til bóta við slíkar umræður. Þær eru meðal annars fólgnar í því að helstu aðstandendur máls, formaður og varaformaður viðkomandi nefndar og ráðherrar viðkomandi málaflokks eða -flokka, séu við og greiði götu umræðunnar hafi þeir áhuga á að koma málunum áfram. Ein var sú tíð að það var bara litið á það sem hreina embættisskyldu ráðherra að mæta ef óskað var eftir honum í þingsal til að eiga skoðanaskipti um mál sem undir hann heyrði.

Sá sem hér stendur var einu sinni á hinni öldinni vakinn á þriðja tímanum að næturlagi vegna þess að ónefndur þingmaður uppi í hinni efri deild sálugu óskaði eftir viðveru minni. Ég fór að sjálfsögðu í fötin, dreif mig hingað niður eftir (Forseti hringir.) og mætti þingmanninum í dyrunum á leiðinni út, en það er önnur saga.

Þannig var þetta og ég vorkenni engum sem vill koma sínum málum áfram að mæta hingað og sinna þingskyldum sínum eins og öðrum.