143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir andsvarið. Varðandi fjárlagahalla ríkissjóðs þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni um það að við eigum að stefna að hallalausum fjárlögum. Hægri stjórnir hafa oft hreykt sér af því að þær einar hafi vit á efnahagsmálum. Það hefur verið mýtan að ef vinstri menn kæmust til valda færi allt til fjandans því að þeir hefðu ekki hundsvit á ríkisfjármálum. Með veru vinstri stjórnar á síðasta kjörtímabili, stjórnar vinstri manna og jafnaðarmanna, var sú mýta afsönnuð. Þá kom í ljós að það voru einmitt vinstri menn í landinu sem gátu haft þá efnahagslegu stjórn sem þurfti til að koma okkur þetta langt út úr kreppunni.

Hægri stjórnir síðustu árin þar á undan — átján ára eða svo, þegar svokallað góðæri átti að vera, síðustu ár fyrir hrun — gerðu ekki það sem hygginn maður gerir að leggja fyrir og hafa eitthvað upp á að hlaupa. Búið var að skera niður í heilbrigðiskerfinu svo að það var miklu veikara fyrir að mæta þessu erfiða hruni.

Ég er sammála því að við eigum að vinna að því að skila hallalausum fjárlögum en þá er það spurningin hvar við ætlum að taka peningana. Ætlum við að afsala okkur tekjum af vel stæðri útgerð eða ætlum við að skera niður velferðarkerfið og fara í vasa hjá láglaunafólki? Ég tel að þurft hefði að endurskoða veiðigjöldin á lítil og meðalstór fyrirtæki og stjórnvöld á síðasta kjörtímabili voru að móta tillögur um það. Stærstur hluti útgerðarinnar hefði algjörlega staðið undir því veiðigjaldi sem lagt var upp með en ég er sammála því að þurft hefði að endurskoða veiðigjöld á minnstu og meðalstóru útgerðirnar. Það hefði ekki kostað nálægt því fjármagni sem þeir fóru út í að lækka á útgerðinni í bolfiskgeiranum.