143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[16:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta andsvar. Já, ég þekki mætavel til þessa verkefnis á því svæði sem stendur mér næst, á norðanverðum Vestfjörðum. Ég veit að þar hefur þetta komið að gagni hjá mörgum ungmennum sem hafa flosnað upp úr námi af einhverjum orsökum, hafa ætlað að fara að vinna, hafa misst vinnuna og verið komin í sjálfheldu og kreppu. Þegar þetta kom til þá var það gífurlega ánægjulegt bæði fyrir margar fjölskyldur og þessa einstaklinga.

Þetta er eitt af þeim góðu verkefnum sem maður er svo glaður yfir að við skulum hafa haft kjark til að fara af stað með, í hinum erfiðu aðstæðum síðustu fjögur ár, þegar ekki voru til peningar til að dreifa í kringum sig til góðra verkefna; vinnumarkaðsaðgerðir sem voru jákvæðar og uppbyggilegar og spöruðu samfélaginu fjármuni til lengri tíma litið. Við erum að koma þessu unga fólki, þeim sem þarna í hlut eiga, aftur af stað í stað þess að þau séu þiggjendur. Það er gífurlega mikilvægt að þau séu sjálfbjarga og geti fundið sig í lífinu.

Af því að hæstv. ríkisstjórn talar nú um að við vinstri menn viljum helst bótavæða alla og hafa alla á bótum þá höfum við þvert á móti verið að hjálpa fólki sem einhverra hluta vegna hefur farið út af hinni beinu braut til að koma því aftur á beinu brautina og finna sína hillu í lífinu. En þessi ríkisstjórn virðist ekki ætla að fylgja þeirri góðu vinnu eftir.