143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[18:19]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur þá tekið þessar hugmyndir með sér inn í 3. umr. Mig langar bara rétt til að segja, vegna þess sem hv. þingmaður sagði í upphafi ræðu sinnar, um þann halla sem verið væri að mæta og þá fullyrðingu hans að sífellt væri verið að klifa á því að þetta væri heimatilbúið vandamál, að það er ekki hægt að neita því að ríkisstjórnin er að lækka skatta sem nemur 5 milljörðum sem skilar þó ekki meiru fyrir einstaklinginn en um 1.000 kr., einstaklingi sem er með um 400 þús. kr. á mánuði — þúsund kall á mánuði sem fæst fyrir það og kostar ríkið mikla peninga.

Með því að falla frá sérstöku veiðigjaldi — ef ég nota bara tölurnar sem hv. stjórnarþingmenn hafa notað, um 3 milljarða, þá eru það að minnsta kosti 3 milljarðar sem koma ekki inn. Ef ég tala bara um náttúrupassann, sem menn hefðu getað farið út í að útfæra, þá hefði hann getað skilað um milljarði. Ef ég tala um virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna, sem var kominn inn í gjaldskrár allra ferðaþjónustufyrirtækja, þá eru þar 1,5 milljarðar á ársgrunni. Það eru því 10 milljarðar að minnsta kosti sem eru þarna heimatilbúnir af þeim halla sem við erum að tala um.