149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:22]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Mikilvægasta mál hverrar ríkisstjórnar ár hvert eru fjárlögin sem við ræðum hér. Þau fela í sér stefnu stjórnarinnar í helstu málaflokkum. Ríkisstjórnin hefur í þessu fjárlagafrumvarpi opinberað að hún lætur undir höfuð leggjast að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Greiðslur úr almannatryggingakerfinu duga ekki fyrir viðunandi framfærslu og haldið er fast við að hinir tekjulægstu skuli áfram bera þungar skattbyrðar í tekjuskattskerfinu.

Sjálfsbjargarviðleitni þeirra öldruðu og öryrkja, sem hafa vilja og getu til að auka við sig vinnu, er lamin niður með óhóflegri skattlagningu og skerðingum sem birtast þessu fólki fyrr en varir ef það hreyfir sig hið minnsta til að leitast við að afla sér lífsbjargar.

Engar aðgerðir eru fyrirsjáanlegar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að aflétta verðtryggingu lána á heimilin í landinu eða þótt ekki væri nema að afnema húsnæðislið vísitölunnar sem væri hálfur sigur á verðtryggingunni því að sá liður vísitölunnar einn og sér hækkar lán heimilanna um nálægt 90% af hækkun þeirra undanfarin ár. Nei, herra forseti, skollaeyrum er skellt við þessari staðreynd og látið sem allt sé í stakasta lagi.

Fjármálaöflin hafa tögl og hagldir í þessari baráttu allri og heimilunum blæðir áfram. Upp á þetta aðgerðaleysi með verðtrygginguna megum við horfa þrátt fyrir að nýleg gögn úr ráðuneytum staðfesti að hátt í 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín á árunum eftir hrun, samtals að lágmarki um 30.000 manns og líklega talsvert fleiri ef allt væri talið.

Nú geisar faraldur vímuefnasjúkdóma í landinu og viðbrögð stjórnvalda eru að mati okkar í Flokki fólksins ekki nægileg. Styðja þarf enn betur við starfsemi SÁÁ. Mikilvægt er að styrkja lögregluna í landinu, fjölga almennum lögreglumönnum og efla almennt og sýnilegt eftirlit lögreglu. Sömuleiðis verður að renna styrkum stoðum undir landamæraeftirlit og ýmislegt fleira mætti tína til.

Herra forseti. Í þessari umræðu um fjárlög ætla ég að fjalla um áherslumál Flokks fólksins til að koma til móts við þá brýnu þörf sem við teljum að sé til staðar til að bæta kjör þeirra sem verða að lifa á undir 300.000 kr. og greiða samt skatt af þeim tekjum, hversu hlægilegt sem það hljómar þegar það er sagt upphátt í þessum ræðustól.

Flokkur fólksins hefur lagt fram nokkur mál í þinginu í haust sem öll lúta að sama markmiðinu, að rétta kjör þeirra sem höllustum fæti standi í okkar þjóðfélagi. Ég ætla að fara yfir tillögur okkar í stuttu máli og byrja á þeim þremur málum sem við settum strax í forgang.

Í fyrsta lagi lögðum við fram þingsályktunartillögu um skattleysi launatekna undir 300.000 kr. og mælti hv. þm. Ólafur Ísleifsson fyrir henni 26. september sl. Sú tillaga var studd af sex þingmönnum úr tveimur flokkum.

Þetta er stórmál. Af hverju segi ég það? Af því að þetta kemur öllum tekjulægstu hópunum til góða, öldruðum, öryrkjum, verkafólki og öllum láglaunastéttunum. Þess vegna er þetta stórmál. Hér er ekki um neinn bútasaum að ræða.

Nei, þetta er ekki hægt, segja ráðamenn, þetta er svo dýrt. En hversu dýrt er það? Það kostar, en það er vel mögulegt.

Herra forseti. Ég vil úr þessum ræðustól vekja athygli á því að hér er e.t.v. um að ræða veigamestu tillöguna sem liggur fyrir Alþingi núna um breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og jafnframt þá tillögu sem gengur lengst í því að koma raunhæft til móts við þá sem þurfa að draga fram lífið á allt of lágum tekjum og greiða í ofanálag skatt af þeim.

Herra forseti. Í tillögunni er gert ráð fyrir að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skattgreiðslum og að ráðherra geri með laga- og reglusetningu viðeigandi ráðstafanir í því efni fyrir árslok 2018. Tillaga þessi er reist á ítarlegum útreikningum sem fram koma í skýrslu dr. Hauks Arnþórssonar sem hann vann fyrir þingflokk Flokks fólksins og fylgir með tillögunni. Þar er ráðherra falið að gera tímasetta áætlun um að tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. verði undanþegnar skatti. Þau skattfrelsismörk samsvara 106.387 kr. persónufrádrætti og er því um tvöföldun skattleysismarka að ræða frá því sem nú er. Forsendur útreikninga eru að skattþrep verði áfram óbreytt.

Með þessari tillögu er gert ráð fyrir að ná fram tveimur meginmarkmiðum, annars vegar að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins verði líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum og hins vegar að hlífa þeim sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða samfélaginu skatta af þeim tekjum. Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra. Kostnaðinum sem hlýst af þessari breytingu er mætt með því að láta persónufrádrátt vera stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri og falla alveg niður við 970.000 kr. laun og munu þeir sem eru með tekjur yfir þeim mörkum einskis persónuafsláttar njóta og verður skattbyrði allra þar fyrir ofan hærri sem honum nemur, þ.e. skattbyrði allra sem eru yfir 970.000 kr. mun hækka um tæpar 54.000 kr. Persónufrádrátturinn falli eftir sveigðu ferli sem bæði mildar áhrifin á tekjuhærri hópana en sýnir jafnframt að áherslan er eindregið til þess að hækka ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Vendipunktur lækkaðra og hækkaðra skatta verði við tekjur að fjárhæð 562.000 kr. og munu skattar smám saman hækka frá þeirri upphæð, miðað við núverandi stöðu, með hækkandi tekjum uns skattahækkunin nær 53.895 kr. við tæplega 1 millj. kr. tekjur. Skattahækkun á hærri tekjur yrði því sama krónutala.

Aukinn tekjuskattur af hærri tekjum verður nýttur til þess að lækka skattbyrði þeirra sem hafa lægri tekjur. Með útreikningum sem fram koma í skýrslu dr. Hauks má sjá samanburð á þessari tillögu og tillögu sem Sjálfstæðismenn komu með í aðdraganda síðustu kosninga um að lækka skattprósentuna niður í 35% á alla jafnt, sjá hvernig það kemur út gagnvart skattþegnunum. Þar kemur fram að 35% tillaga Sjálfstæðismanna kostar ríkissjóð 22 milljarða, en sveitarfélögin aðeins 2 milljarða og eykur hún sáralítið ráðstöfunartekjur láglaunafólksins eins og margoft hefur komið hér fram.

Tillaga Flokks fólksins gerir hins vegar ráð fyrir 31,4 milljarða kr. kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum en aðeins um 0,6 milljarða kr. kostnaði hjá ríkissjóði. Á þessum tillögum er 8 milljarða kr. munur. Það er allt og sumt. Er þetta ómögulegt? Nei. Er þetta réttlætismál? Já.

Herra forseti. Hafa þarf í huga að hér er gerð tillaga um breytingar á hinu almenna skattkerfi og því sett ný markmið. Með tillögunni er gert ráð fyrir að rétta af þann mismun skattbyrði tekjuhárra og tekjulágra hér á landi samanborið við hlutföll milli sambærilegra hópa annars staðar á Norðurlöndunum og jafnframt tekist á við að lyfta ráðstöfunartekjum lægstu launa yfir framfærslumörk. Markmið tillögunnar er að tekjur sem ekki duga til framfærslu samkvæmt viðurkenndum viðmiðum og birt eru á vefsvæði stjórnvalda, á vef velferðarráðuneytisins, verði ekki skattlagðar. Tillagan hefur að auki þau þjóðfélagslegu markmið að auka jöfnuð í skattkerfinu og færa skatthlutföll nær því sem gerist og gengur á Norðurlöndunum, en við skerum okkur einkum frá þeim í að hæstu tekjur bera 8% lægri skatt en að meðaltali meðal nágrannalandanna, eins og rakið er í greinargerð með ályktuninni og kemur fram í töflu um skattbyrði tekjuhópa. Nái þessi tillaga fram að ganga, herra forseti, myndi hún þjóna hagsmunum aldraðra, öryrkja og þeirra tekjulægstu vel og vera risastökk í þá átt að ráðast að fátæktinni sem í raun og veru er til staðar hér.

Herra forseti. Í öðru lagi vil ég nefna frumvarp okkar sem ætlað er að ráðast að rótum verðtryggingarinnar en mælt var fyrir því hinn 17. september sl., frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, sem studd var af 11 þingmönnum úr tveimur flokkum. Það frumvarp inniheldur að meginstefnu til fjögur meginatriði. Markmið þess er að leitast við að jafna stöðu samningsaðila um verðtryggð lán til kaupa á íbúðarhúsnæði en engum þarf að blandast hugur um að samningsaðilar í lánaviðskiptum vegna húsnæðiskaupa hafa mjög ójafna stöðu, ekki síst vegna ólíkra fjárhagslegra burða þar sem aflsmunur er verulegur en ekki síður þegar kemur að þekkingu á fjárhagslegum efnum.

Verðtryggt lán er ekki einfalt í eðli sínu. Bankar hafa mun meiri þekkingu á fjármálamarkaði og þeim þáttum sem geta haft áhrif á þróun verðlags og kaupgjalds en allur almenningur. Gengisfall krónunnar og verðbólgan sem fylgdi í kjölfar efnahagshrunsins 2008 er flestum í fersku minni sem og áhrifin sem þessir atburðir höfðu á verðtryggð lán með geigvænlegum afleiðingum fyrir heimili landsmanna og hag fjölskyldna. Full efni eru því til að stíga markverð skref til þess að jafna þann mikla aðstöðumun sem ríkt hefur milli aðila slíkra lánasamninga.

Fjögur meginatriði frumvarpsins eru í fyrsta lagi að verðtrygging feli í sér úrræði til að mæta áhrifum almennra verðlagsbreytinga sem rót eiga að rekja til verðfalls krónunnar þegar svo ber undir. Slíkar verðlagsbreytingar eru allt annars eðlis en verðbreytingar sem stafa af sértækum aðgerðum stjórnvalda sem hafa í för með sér breytingu á vöruverði. Gert er ráð fyrir að hinar sértæku aðgerðir falli þannig ekki undir þessa almennu og viðurkenndu skilgreiningu á verðbólgu.

Hér má nefna í dæmaskyni ákvarðanir stjórnvalda sem snúa að tekjuöflun ríkissjóðs, svo sem áhrif breytinga á óbeinum sköttum og sértækar álögur á einstaka vöruflokka eins og eldsneyti, áfengi og tóbak. Engin efni eru til að lántakar verðtryggðra lána bæti lánveitendum upp skattahækkanir sem gerðar eru til að standa undir verkefnum í almannaþágu og eiga eðli málsins samkvæmt að leggjast jafnt á alla eftir því sem þeir haga innkaupum sínum. Hið sama gildir einnig um skattaálögur sem ætlað er ná tilteknum markmiðum í þjóðfélagsmálum, t.d. með álögum á tiltekna flokka matvæla með heilbrigði og hollustu að markmiði og á eldsneyti til að rækja markmið vegna alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum með svonefndu kolefnisgjaldi. Engin efni eru til að álögur af því tagi sem ég nefndi séu lagðar aukalega á lántakendur verðtryggðra íbúðalána.

Í öðru lagi hefur komið fram að svonefndur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs, sem ekki styðst við alþjóðlegt samræmt viðmið, hafi á liðnum árum haft í för með sér mun meiri hækkanir á höfuðstól og greiðslum af verðtryggðum lánum en almennar verðhækkanir í landinu hafa gert. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur upplýst að á fimm ára tímabili, 2012–2017, hafi verðbætur á íbúðalán vegna almennra verðlagshækkana numið 15 milljörðum kr., en á sama tíma hafi 118 milljarðar lagst ofan á verðtryggð íbúðalán vegna áhrifa húsnæðisliðar vísitölunnar. Hlutur húsnæðisverðsins í verðbótunum er því 88,7%.

Með frumvarpinu er kveðið á um að vegna þeirra þátta sem hér hafa verið taldir, óbeinna skatta og húsnæðisliðar vísitölunnar, verði Hagstofu Íslands falið að birta vísitölu neysluverðs þar sem áhrif þessara þátta eru felld brott. Skal þá nota þá vísitölu við útreikning greiðslna á verðtryggðum íbúðalánum.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu kveðið á um að þegar íbúðalán er í formi verðtryggðs jafngreiðsluláns megi lánstími ekki vera lengri en 25 ár. Rökin fyrir þessari breytingu felast fyrst og fremst í þeim ókostum verðtryggðra jafngreiðslulána til langs tíma að verðbótum er velt á höfuðstól lánsins og greiðslum þeirra frestað. Með óbreyttu fyrirkomulagi og lengri lánum er eignamyndunin gerð hægari en ella og líkur á neikvæðu eigin fé lántaka aukast. Fullyrða má að neytendur hafi ekki verið nægilega meðvitaðir um þá áhættu sem verðtryggð jafngreiðslulán bera með sér, þá sérstaklega lengri lánin sem eru til 40 ára, sem hafa lengi verið langalgengustu íbúðalán íslenskra heimila.

Í fjórða lagi kveður frumvarpið á um að vextir af verðtryggðum íbúðalánum megi ekki fara yfir 2% á ári. Vextir á verðtryggðum samningum hafa til þessa verið ákveðnir við markaðsskilyrði sem sýnast oftlega frekar einkennast af fákeppni en samkeppni.

Herra forseti. Í þriðja lagi vil ég nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna. Mælt var fyrir frumvarpinu 25. október sl. og flutningsmenn eru níu þingmenn úr þremur flokkum. Í 31. gr. laga nr. 96/2017 er kveðið á um að ellilífeyrisþegar skuli hafa 100.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna samkvæmt 23. gr. laga um almannatryggingar. Um er að ræða sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara sem kemur til viðbótar við hið almenna frítekjumark laganna sem nemur 25.000 kr. á mánuði. Með lögum númer 116/2016, um breytingu á lögum um almannatryggingar og fleiri lögum, var m.a. gerð sú breyting á ellilífeyriskerfi almannatrygginga að öll sértæk frítekjumörk vegna einstakra tegunda tekna voru afnumin. Var þess í stað lögfest eitt almennt frítekjumark sem nemur 25.000 kr. á mánuði og gildir það um allar tekjur ellilífeyrisþega, óháð tegund. Þar áður hafði frítekjumark ellilífeyris almannatrygginga gagnvart atvinnutekjum verið 109.000 kr. Eftir samþykkt laganna kom fram gagnrýni á þessa breytingu að því er atvinnutekjur varðar og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara.

Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðið á haustmánuðum 2017. Þar kemur fram að afnám skerðingar á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og að það sé vel hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni.

Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Því er lagt til að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna, samanber 23. gr. laga um almannatryggingar.

Mál þetta er lýðheilsumál, herra forseti, fyrir þann hóp aldraðra sem getur og vill vinna lengur. Það sem meira er, þetta kostar ríkissjóð ekki krónu.

Herra forseti. Nú hef ég talið upp þau þrjú mál, tvö frumvörp og eina tillögu til þingsályktunar, sem Flokkur fólksins hefur lagt fram sem sín forgangsmál. En þá er ekki allt upptalið því að ég vil einnig nefna nokkur önnur mál sem ætlað er að rétta hlut þeirra sem við erum hér málsvarar fyrir.

Næst ber að nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, svokallað lyklafrumvarp. Það var stutt af níu þingmönnum úr fjórum flokkum og var mælt fyrir því 14. nóvember sl. Frumvörp sem stefna að sama markmiði og þetta frumvarp hafa verið lögð fram a.m.k. fimm sinnum áður. Það er að stofni til samið að tilstuðlan Hagsmunasamtaka heimilanna og byggist á sömu rökum og færð voru fyrir hinum fyrri frumvörpum. Aftur á móti er farin nokkuð önnur leið við útfærslu þess með hliðsjón af nýlegri lagaþróun. Með frumvarpinu er gerð tillaga sem getur haft mikla þýðingu fyrir þá sem lenda í greiðsluerfiðleikum sem leiðir til þess að þeir missa húsnæði sitt á nauðungarsölu. Í stuttu máli gerir frumvarpið ráð fyrir að eftirstöðvar lánsins falli niður við nauðungarsölu eða sambærilegar aðgerðir og að lántakinn sé þá laus allra mála, geti í raun skilað lyklinum ef svo má að orði komast. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri lánastarfsemi með því að færa skuldurum að fasteignalánum í hendur þann möguleika að láta af hendi veðandlag lána sinna, þ.e. viðkomandi fasteign, og ganga skuldlausir frá borði ef í harðbakkann slær. Frumvarpið er þannig mikilvægur liður í því að dreifa áhættutöku í fasteignalánum og færa innlenda lánastarfsemi úr því horfi að áhætta sé einhliða og einungis á hendi lántaka.

Herra forseti. Loks ætla ég að nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, þ.e. Framkvæmdasjóð aldraðra, sem hefur verið lagt fram en ekki mælt fyrir enn sem komið er. Það frumvarp er stutt af 11 þingmönnum úr þremur þingflokkum. Markmið þess frumvarps er að tryggja að fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra sé varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða eins og kveðið er á um í lögunum en á því hefur verið áralangur misbrestur. Verði frumvarpið að lögum fellur niður bráðabirgðaákvæði VII við lögin um heimild til þess að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða, eins og þar segir. Þetta er þörf breyting og löngu tímabær, að féð fari í það sem ætlast var til í upphafi.

Herra forseti. Þá hef ég farið yfir fimm tillögur Flokks fólksins til að koma til móts við ákall þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu og meira mun birtast fyrr en varir.

Þar sem ég sé að enn á ég tíma aflögu vil ég minnast stuttlega á önnur atriði sem eru mér ofarlega í huga. Fyrst ætla ég að nefna löggæsluna. Lögreglan í landinu hefur um langt árabil mátt þola fjársvelti. Virðist sem öllum viðmiðum um viðunandi mannafla í lögreglu hafi verið varpað fyrir róða allt frá aldamótum. Á sama tíma og verkefnum lögreglu hefur fjölgað, þau orðið flóknari og landsmönnum og ferðamönnum fjölgað hefur lögreglumönnum um langt árabil ekki fjölgað heldur fækkað. Áberandi er hve mjög hlutur löggæslunnar úti á landi er fyrir borð borinn og er skemmst að minnast mjög aðkallandi þarfar fyrir lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi vegna tíðra slysa og mikils fjölda ferðamanna. Óhætt er að fullyrða að fjárveitingar til löggæslu séu alls ekki nægilegar til að tryggja lögreglunni þær starfsaðstæður sem nauðsynlegar eru í þjóðfélagi samtímans. Brýn og aðkallandi þörf er á fjölgun lögreglumanna eins og fjölmargar skýrslur bera með sér, t.d. skýrsla innanríkisráðuneytisins frá 2012 um stöðu lögreglunnar þar sem helsti vandi lögreglunnar er talinn fækkun lögreglumanna.

Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi grunnhlutverks lögreglunnar sem er að tryggja öryggi borgaranna, koma í veg fyrir afbrot og rannsaka þau, en einnig þjónustu-, aðstoðar- og hjálparhlutverk hennar, auk samstarfshlutverks hennar sem tengist öðrum stofnunum þjóðfélagsins á fjölmarga vegu. Miklar og margvíslegar breytingar hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi. Aukin alþjóðavæðing og stóraukin ferðalög og fólksflutningar landa á milli hafa haft í för með sér að störf lögreglu almennt eru orðin erfiðari og margslungnari en áður.

Samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem kynnt var í október 2017 er varað við fyrirsjáanlegri þróun á skipulegri glæpastarfsemi, þar á meðal um alþjóðlega glæpastarfsemi, sem hingað teygja anga sína, fíkniefnasölu, mansal, vændi o.fl. Deildin telur að framhald verði á þeirri þróun og að í reynd sé um viðvarandi ástand að ræða. Mikilvægt er að lögreglunni verði gert kleift að skipuleggja störf sín á grundvelli kerfisbundinna greininga á þróun mála hérlendis og erlendis þar sem reynt er að nálgast brot og önnur löggæsluvandamál með það fyrir augum að fyrirbyggja þau.

Loks verður að hafa í huga að ógnir eru ekki eingöngu fyrirséðar. Lögreglan verður einnig að vera það öflug að hún geti tekist á við óþekktar ógnir sem geta komið upp fyrirvaralaust. Lögreglan þarf því að vera nægilega öflug á sviði öryggismála og svo sveigjanleg að hún hafi burði til þess að bregðast við hættum sem ekki gera boð á undan sér.

Samkvæmt skýrslu sem lögð var fram til kynningar á Alþingi vantaði 236 lögreglumenn í lögreglulið landsins á árinu 2013. Byggðist skýrslan á vinnu nefndar sem skipuð var á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi í júní 2012. Niðurstaða nefndarinnar var að stórefla þyrfti lögregluna. Í skýrslunni kemur fram forgangsröðun innan lögreglu. Þar er efst á blaði fjölgun almennra lögreglumanna, þ.e. lögreglumanna sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit. Þá mat ríkislögreglustjóri að lögreglumenn þyrftu að vera að lágmarki 860 á landinu öllu. Þar kom fram að fjöldi lögreglumanna árið 2007 hafi verið 712, en þeim hafi fækkað í 624 árið 2012, um 88 lögreglumenn. Í skýrslunni kemur fram að talið sé að uppsöfnuð þörf á fleiri lögreglumönnum úti á landi sé 79 manns og að nauðsynlegt sé að fjölga lögreglumönnum á landinu öllu um 236 til ársins 2017, um nálega 38%.

Hver hefur svo þróunin verið? Menntaðir lögreglumenn voru 636 í febrúar á þessu ári samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá þeim sem hér talar og eru því 20 færri en sex árum fyrr þegar fyrrgreind skýrsla var gerð. Enn vantar því rúmlega 240 lögreglumenn. Á sama tíma hefur lögreglumönnum fækkað enn frekar ef miðað er við fjölda lögreglumanna á íbúa. Nauðsynlegt er að fjárveitingar til lögreglu hækki nægilega til að lögreglumönnum verði a.m.k. fjölgað til samræmis við það sem þessi nefnd sem ég nefndi taldi nauðsynlegt árið 2012. Litlar vísbendingar eru um það í fjárlagafrumvarpinu að ríkisstjórnin hafi áætlanir um að ná því takmarki og er unnt að segja að langur vegur sé frá því.

Herra forseti. Flokkur fólksins leggur áherslu á að sýslumannsembætti landsins verði styrkt og þeim verði gert kleift að sinna betur hlutverki sínu. Eftir þær miklu breytingar sem gerðar voru á fjölda sýslumannsembætta 2015 hafa embættin barist í bökkum vegna ónógra fjárveitinga. Fyrirheit um flutning verkefna til þeirra hafa heldur ekki gengið eftir. Nauðsynlegt er að styrkja sýslumannsembættin og treysta starfsgrundvöll þeirra svo þau geti staðið undir nafni sem útverðir framkvæmdarvalds og þjónustu ríkisins í héraði. Nauðsynlegt er bæði að auka fjárveitingar til embættanna sem og standa við gefin fyrirheit um flutning verkefna frá ráðuneytum og stofnunum út á land og til sýslumannsembættanna.

Herra forseti. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin boði stórsókn í samgöngumálum er ljóst að mörg aðkallandi og brýn samgönguverkefni fá enn að bíða og má þar nefna tvöföldun Hvalfjarðarganga, Sundabraut, Ölfusárbrú, Fjarðarheiðargöng og svona gæti ég áfram talið. Bættar samgöngur skila sér með margvíslegu móti til íbúa landsins og styrkja byggðir og atvinnuvegi. Framkvæmdir við aðskilnað akstursstefna út frá höfuðborginni, suður til Keflavíkur, í Borgarnes og austur fyrir Selfoss, taka allt of langan tíma.

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að flýta fyrir brýnum vegaframkvæmdum og það er óviðunandi að ríkisstjórnarflokkarnir skili auðu í þessum málum þegar allt vegakerfið liggur undir miklu umferðarálagi og nauðsyn er á úrbótum.

Í ljósi upplýsinga frá fulltrúum Vegagerðarinnar á nýlegum fundi með fjárlaganefnd telur Flokkur fólksins ástæðu til að kannaðir verði kostir þess að minnka slit á vegum af völdum hópferða-, flutninga- og vörubifreiða með aðgerðum eins og takmörkunum á öxulþunga, hertari reglum um fjölda ása, sem og dekkjafjölda á hverjum ás, ásamt reglum um breidd og lægri loftþrýsting í hjólbörðum þessara bifreiða. Þessar upplýsingar frá Vegagerðinni benda til að stærri bifreiðar og þungar bifreiðar eyði og fari mjög illa með vegi landsins svo munar mörgum þúsundum meira en fólksbílar, ef ekki tugþúsundum. Af hverju þá ekki að fara í aðgerðir til að stemma stigu við því með því sem ég nefndi áðan?

Flokkur fólksins bendir á og tekur undir með Samtökum ferðaþjónustunnar í umsögn þeirra um fjárlagafrumvarpið að nú þegar sýnt er að hægja muni á hagvexti sé kjörið tækifæri til að huga að auknu viðhaldi og nýframkvæmdum á sviði samgangna.

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið hér og minnast að endingu á skógrækt og ræða um kolefnisbindingu. Ég vil ræða um mikilvægi þess að halda þá áætlun um kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu sem lagt var upp með í upphafi. Það vakti athygli mína að minni hækkun er á framlögum til kolefnisbindingar en í fyrstu tillögu fjárlaga 2019. Hækkunin árið 2019 er því ekki 250 milljónir eins og sjö ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu heldur nær 160 milljónum. Þetta virðist stafa af samdrætti í áætluninni, samdrætti tengdum sóknaráætlun í loftslagsmálum. Niðurskurður á árinu 2019 er um 50 millj. kr. Einnig er gert ráð fyrir samdrætti frá áður áætluðum fjárveitingum til nytjaskógræktar á bújörðum og til Hekluskóga.

Herra forseti. Losun á kolefni eykst enn með auknum iðnaði, flugi, akstri og auknum umsvifum, svo ekki sé talað um aukna framræslu lands. Eina raunhæfa leiðin til að binda kolefni er með skógrækt eða landgræðslu. Það verður að byrja strax og nýta þá innviði sem þegar eru til staðar til að hefja þessa vegferð. Lagðar hafa verið fram áreiðanlegar áætlanir um bindingu með fjórföldun skógræktar. Sú áætlun felur í sér að árið 2023 hafi árleg gróðursetning verið fjórfölduð, úr 3,1 milljón trjáa í 12,4 milljónir. Þannig sé stefnt að því að árið 2030 bindi íslenskir skógar 587.000 tonn af kolefnisígildum á ári og að flatarmál nýskógræktar verði 75.000 hektarar sem er þó aðeins 0,75% af flatarmáli landsins. Með sama áframhaldi verður árleg binding í skógi 886.000 kolefnisígildistonn árið 2040 og flatarmál nýskógræktar nær þar 112.000 hekturum sem eru þó ekki nema 1,2% alls landsins. Auk þess má binda hundruð þúsundir tonna með landgræðslu. Þarna er því verið að byggja upp auðlindir fyrir framtíðina, gera afkomendur sjálfbæra um timbur, tryggja atvinnu í dreifðum byggðum og fjölbreytileika í búskap, auk þess að gera þjóðinni kleift að standa við alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum.

Það er gríðarlega brýnt að hægt sé að treysta þeim áætlunum sem settar hafa verið fram um fjármögnun þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að byggja upp plöntuframleiðslu í landinu, tryggja að unnt verði að hefja bindingu strax með skógrækt, landgræðslu og endurheimt birkiskóga. Í ljósi þess er algerlega fráleitt að ætla að lækka framlög til kolefnisbindingar frekar en að hækka þau og hugsa til framtíðar.