149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Fjárlög hvers árs eru mikilvægasta stefnuplagg ríkisstjórnarinnar. Tíminn er fljótur að líða og nú ræðum við önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, ríkisstjórnar sem til var stofnað til að koma góðum málum í gegn. Til að treysta þá innviði sem fjársveltir hafa verið árum saman, ríkisstjórnar sem lögð var á breiddina, ríkisstjórnar sem leggur nú fram útgjaldafjárlög. Já, þarna eru útgjöld, annað væri nú í okkar ríkidæmi. Hvað segja ráðherrarnir hérna, einn af öðrum? Fádæma hagsæld. En í fjárlagafrumvarpinu og ekki síður í þeim breytingartillögum sem ríkisstjórnin sjálf kom fram með milli 1. og 2. umr. má sjá forgangsröðun ríkisstjórnarinnar einmitt á breiddina.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram breytingartillögur í 17 liðum sem allar ríma vel við þá stefnu sem a.m.k. sumir stjórnarflokkanna ættu að eiga auðvelt með að styðja. Það er nefnilega svo að á breiddina getur þynnst mjög á þræðinum og sú virðist hafa orðið raunin hjá ríkisstjórn þeirri sem nú er við völd. Við í Samfylkingunni leggjum ekki fram glórulausar eða óábyrgar hugmyndir til breytinga á fjárlögum, heldur einmitt vel ígrundaðar tillögur, fjármagnaðar að auki með ákveðið markmið að leiðarljósi. Okkar leiðarljós er að auka hér jöfnuð, að auka jöfnuð í íslensku samfélagi. Við viljum nefnilega deila þeim gæðum sem eru til skiptanna í okkar vel stæða og góða samfélagi.

Þar hefur stjórnvöldum að undanförnu mistekist hrapallega, sér í lagi þegar kemur að stóru stóraðgerðum eins og skuldaleiðréttingu heimilanna, sem þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks stóð að, aðgerðum sem gögnuðust best þeim sem höfðu það best fasteignaeigendunum, langbest eins og rannsóknir sýna. Tillögurnar 17 hafa verið rækilega kynntar af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og ætla ég ekki að fara í það að kynna hverja einustu tillögu hér og endurtaka það sem áður hefur verið sagt: Já, við erum hér að ræða þessi fjárlög sem um margt eru útgjaldafjárlög en því miður teljum við í Samfylkingunni að ríkisstjórn Katrínar hafi mistekist að auka hér jöfnuð, nauðsynlegan jöfnuð sem og að treysta grunnstoðirnar okkar, innviðina sjálfa. Því að þó að skuldir hafi vissulega lækkað mikið á undanförnum árum, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, kom réttilega inn á í ræðu sinni í gær, þá er það vissulega verðugt verkefni en má sín lítils á meðan börnin svelta.

Nú nota ég myndlíkingu, herra forseti, því að ég er ekkert endilega að tala um sveltandi börn í eiginlegri merkingu. Ég er að tala um hvernig haldið er um rekstur þessa heimilis sem þjóðarbúið er.

Við erum í miðju góðæri og erfiðu árin eru að baki. Það er í sjálfu sér ekkert nema bjart fram undan, sagði Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins við flokksfélaga sína á landsfundi síðastliðið vor. — Í sjálfu sér ekkert nema bjart fram undan.

Hvernig birtist sú birta okkur eftir stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í fjármálaráðuneytinu undanfarin ár? Birtan kemur fram með innviðum sem eru svo illa laskaðir að það þarf alls staðar að eiga sér stað umtalsverð innspýting bara til að forða verulegu tjóni á sameiginlegum eignum okkar landsmanna. Við erum að tala um heilbrigðisstofnanir, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður um allt land. Við erum að tala um samgöngumannvirki sem eru orðin hættuleg, sem fá algjöra falleinkunn í samanburði við önnur ríki. Við erum að tala um tjón á velferðar-, heilbrigðis- og löggæslukerfi og fleira. Ég gæti notað allar 40 mínúturnar bara í að tala um það hvernig einn af þessum stjórnarflokkum og stundum tveir af þeim hafa farið með okkar sameiginlegu eigur. Það er þess vegna, herra forseti, sem fara þarf í veruleg útgjöld og það kostar peninga. Þá fjármuni þarf ríkisstjórnin að sækja, eigi ekki illa að fara.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem lögð var á breiddina, getur ekki komið sér saman um hvernig afla eigi fjár til að bregðast við þessum nauðsynlegu útgjöldum og þess vegna er staðan eins og hún er. Farin er hálf leið, eða eigum við kannski að segja önnur leið á sumum sviðum, en ekki hin nauðsynlega leið til að koma í veg fyrir frekara tjón.

Mig langar fyrst að benda á þá sérstöku stöðu að útgjöld til velferðarmála, sem eru okkar allra mikilvægustu mál, lækka milli 1. og 2. umr. Þetta er ofsalega viðkvæmt mál fyrir stjórnarflokkana, en þetta er ekkert bull, herra forseti. Þetta stendur í breytingartillögum meiri hlutans. Það stendur í breytingartillögu meiri hlutans að framlag til öryrkja eigi að lækka um 1.100 millj. kr., 1,1 milljarð frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram, en þar gaf að líta áform ríkisstjórnarinnar — lækkun um 1,1 milljarð. Það er útskýrt með því að niðurstaða nefndar um kerfisbreytingar er ekki komin fram og þess vegna verði að fresta þessari framkvæmd eitthvað fram á næsta ár. Það er ekki komin niðurstaða í málið.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á það að það er engin ástæða til þess að koma í veg fyrir löngu tímabæra leiðréttingu á kjörum öryrkja með niðurfellingu krónu á móti krónu óréttlætisins. Það er engin ástæða til að bíða, engin. Það ku vera ætlun ríkisstjórnarinnar að hefja þann leiðangur, en bara ekki alveg strax. Þá hefur það líka komið fram í röksemdum stjórnarþingmanna, m.a. hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, að það sé óábyrgt af okkur í Samfylkingunni og öðrum sem talað hafa fyrir því að þessir 4 milljarðar fái að vera þarna inni, að leggja til 4 milljarða þegar ekki sé ljóst hvernig þeim verður ráðstafað.

En þá hlýtur maður að spyrja: Hvað þá með þessa 2,9 milljarða sem nú hefur verið tekin ákvörðun um að halda þarna inni? Það er ekki búið að ákveða neitt. Nefndin hefur ekki lokið störfum sínum. Hún er ekki búin að ákveða hvernig þessi kerfisbreyting á að fara fram. En með þessum rökum, að það sé gríðarlega ábyrgðarlaust að tala um 4 milljarða, eru 2,9 milljarðar eitthvað ábyrgara tal? Er það ábyrgari aðgerð? Þessi rök hv. þingmanns halda illa. Því að hver er þessi fjárhæð, 2,9 milljarðar? Það er sá verðmiði sem ríkisstjórnin ætlar sér í kerfisbreytinguna en ekki um áramót heldur bara frá öðru tímabili næsta fjárlagaárs. Hvert er vandamálið?

Við í Samfylkingunni höfum bent á að stjórnvöldum er ekkert að vanbúnaði að láta þessa kerfisbreytingu einfaldlega gilda afturvirkt frá 1. janúar 2019. Þannig að þó að endanleg útfærsla sé ekki komin fram, sé ekki ákveðin, verði a.m.k. ekki hoggið á möguleika þessa hóps, þeirra sem verst standa í þjóðfélaginu til að fá örlitla lífskjarabót. Hvers vegna ætti það ekki að vera hægt í þessu tilviki eins og svo fjölmörgum öðrum? Fordæmin eru endalaus. Þetta er alvarleg aðgerð þegar kaup eða kjör eru ákveðin, og hvers vegna þá ekki núna? Það þarf einbeittan vilja til að taka ákvörðun um að lækka lofað framlag til öryrkja um 1.100 millj. kr. bara sisvona.

Mig langar svolítið að ræða um afnám krónu á móti krónu skerðingu. Hvar ætlum við að taka peningana í þá aðgerð? Ríkisstjórnin ætlaði 4 milljarða í verkið en tekjumöguleikar stjórnvalda eru stórkostlega vannýttir. Má þar nefna í framhjáhlaupi að stjórnvöld hafa t.d. ákveðið að lækka auðlindagjald af veiðileyfum um heila 3 milljarða. Það er meira en öll fjárhæðin sem ákveðin var í þetta verkefni, afnám krónu á móti krónu skerðingar. Það er meira en hækkunin. Og það þrátt fyrir að stærstu útgerðir landsins hafi tekið milljarðatugi út úr greininni á undanförnum árum. Ríkisstjórnin ætlar að lækka veiðileyfagjaldið á alla um 3 milljarða á sama tíma og íslenska krónan fellur um 15% sem svo gleðilega vill til að kemur útflutningsaðilum, þar á meðal fiskútflytjendum, afskaplega vel.

Þeir hafa borið sig afar illa vegna styrkingar krónunnar þótt það væri ekkert endilega að merkja í arðgreiðslum þeirra stærstu. En núna veikist krónan, hún hefur veikst í hverjum mánuði frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við og veikist stöðugt. Þá ætti að vera nægt rými fyrir þá sem eru í útflutningi, þá sem veiða fiskinn okkar úr sjónum til að greiða eðlilega rentu fyrir afnot af þessari auðlind. En nei, ríkisstjórnin telur mikilvægara að fresta og taka skemmra skref til réttarbóta fyrir öryrkja. Það finnst ríkisstjórninni upplagt að gera. Að fresta því að afnema krónu á móti krónu skerðingu, sem allir hér inni, held ég, eru sammála um sé hrikalega óréttlátt kerfi. Ég leyfi mér að fullyrða að enginn hér inni væri tilbúinn í þann díl sem við bjóðum öryrkjum upp á. Það væri enginn tilbúinn til þess að láta einhverjar aukagreiðslur, sem koma til vegna starfa þingmanna, dragast til jafns frá grunnlaunum.

Þetta er óréttlátt kerfi. Við getum lagað það.

Sá verðmiði sem settur hefur verið á þessar aðgerðir, að fella niður krónu á móti krónu óréttlætið, er ekkert endilega réttur, herra forseti. Er líklegt að ávallt sé miðað við kostnaðarsömustu mögulegu útkomu en ekkert litið til þess hvað sparast við að hvetja öryrkja til virkni? Ríkissjóður leggur nefnilega töluverða fjármuni í að efla virkni þessa hóps, en samhliða virkni má ætla að verðmætasköpun eigi sér líka stað. Þannig má einnig gera ráð fyrir að með aukinni virkni geti einhver hluti þeirra sem nú er á fullri örorku, jafnvel minnkað örorkuhlutfall eða á endanum jafnvel losnað alveg vegna þess að hluti þeirra sem lenda á örorku eru þar vegna andlegra veikinda.

Valdefling hvers konar og virkni getur þannig gert ótrúlega mikið gagn. Og þó að við séum bara að horfa á það að auðga líf eins einstaklings er það meira en þess virði. Hvers vegna ættum við þá að fresta því? Hvers vegna má ekki í eitt einasta skipti gera bara ágætlega við þennan hóp? Hvers vegna má ekki bara stækka skrefið sem taka á á næsta ári? Stækka skrefið um þessar 1.100 milljónir sem áður höfðu verið áætlaðar? Hvaða vísindi segja að 2,9 milljarðar séu nákvæmlega rétta talan sem kemur út úr vinnunni við kerfisbreytingarnar? Hvernig er sú tala fundin? Það er engin lógík í því, bara ranglæti og þeim mun minna ranglæti sem við beitum öryrkja, nú þegar fádæma hagsæld hefur ríkt, þeim mun uppréttari geta ráðamenn þjóðarinnar gengið um götur landsins. Það vinna allir, líka ráðherrar í ríkisstjórn Íslands.

Aðeins að samgöngumálum. Við meðferð samgönguáætlunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd virðist ekki nokkur einasti maður sem sendir inn umsögn eða mætir til fundar við nefndina vera sáttur við það sem gera á. Allir landsfjórðungar hrópa hástöfum. Sums staðar eru vegfarendur beinlínis í lífshættu á hverjum degi vegna umferðarþunga á of smágerðum samgönguæðum, á meðan dekk springa og skólabörn neita að fara í skólann með skólabílum á illa viðhöldnum malarvegum um dreifðar byggðir landsins. Já, það er bara bundið slitlag á um helmingi veganna, hvort sem við trúum því eða ekki. Við stöndum jafnfætis Indlandi og Filippseyjum þegar kemur að gæðum vegakerfisins. Indland og Filippseyjar eru frábær ríki, vissulega. En í fimm stjörnu matskerfi á vegakerfum heimsins þá skora flestir okkar vegir í flokki einnar og tveggja stjarna. Við náum sjaldnast þriggja stjörnu vegakerfi, hvað þá fjögurra og fimm stjarna, sem eðlilegt þykir í nágrannalöndum okkar. Þannig að vegakerfi okkar er á pari við það sem þekkist á Indlandi og Filippseyjum.

Milli 1. og 2. umr. fjárlaga var svo tekin ákvörðun um að skera niður áður ákveðin útgjöld í samgöngumálum um rúmlega hálfan milljarð króna þrátt fyrir ramakvein úr öllum fjórðungum. Já, og þrátt fyrir þá tillögu situr nú hv. umhverfis- og samgöngunefnd á fundum til að ljúka við samgönguáætlun sem gerði ráð fyrir þeim fjármunum sem þar koma fram. En nú er lögð fram breytingartillaga sem lækka á framlagið um hálfan milljarð án skýringa eða rökstuðnings. Eða hvað? Hvað ætlar stjórnin að gera? Hvað leggur hún til? Ætlar hún að hætta við breikkun Reykjanesbrautar eða hætta við nauðsynlegar samgöngubætur á Suðurlandi eða Vestfjörðum? Hætta við að klára Dýrafjarðargöng eða skera kannski alfarið burt samgönguframkvæmdir á austursvæðinu?

Eða eigum við að tala um almenningssamgöngur? Hvað með almenningssamgöngur sem eru grundvallarforsenda þess að við getum staðið við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum? Ætlar ríkisstjórnin að leggja eitthvað til þar? Nei, nei. Það koma engar hugmyndir um slíkt frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Engin hækkun á sér stað milli umræðna þrátt fyrir augljósa nauðsyn og ábendingar þess efnis að ekki verði gert ráð fyrir neinni fjárhæð, t.d. í mikilvægustu samgöngubætur höfuðborgarsvæðisins, sjálfa borgarlínu, sem Reykjavíkurborg hefur nú sett í áætlun að leggja 5 milljarða í á næstu árum. Ríkisstjórnin skilar auðu þar. Ekki króna er merkt í þá bráðnauðsynlegu framkvæmd af hálfu ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir fögur orð, ekki króna, þrátt fyrir samkomulag þess efnis milli hæstv. samgönguráðherra og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að haga samstarfi sínu við sveitarfélögin? Framlag til almenningssamgangna um allt land hækkar um heilar 150 millj. kr. í heildina. Það vill svo skemmtilega til að þessi tala er 50 milljónum krónum lægri fjárhæð en kostar að stofna sérstaka skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu, ef marka má kynningu þess ráðuneytis á því verkefni. Það kostar sem sagt 200 millj. kr. að færa málaflokkinn jafnréttismál úr einu ráðuneyti í annað, en við ætlum að auka framlag til almenningssamgangna yfir allt landið, sem er grundvöllur í loftslagsaðgerðum okkar, um 150 milljónir. Í fjárlagafrumvarpinu er sagt að þetta fjármagn, þessar 150 millj. kr. í aukin útgjöld til almenningssamgangna, eigi m.a. að nota vegna núgildandi samninga um áætlunarakstur á landsbyggðinni. Af því að það er meira og minna rekið með tapi um allt land. Ekkert er fjallað um fjármagn til nýframkvæmda í almenningssamgöngum og, eins og áður sagði, ekkert um langstærsta byggðakjarna landsins, höfuðborgarsvæðið, þar sem um 70% landsmanna búa, fyrir utan alla ferðamennina.

Það eru engin merki um það í fjárlögum að efla eigi almenningssamgöngur til að sýna að stjórninni sé alvara með stórsókn í loftslagsmálum og sýnir fjárlagafrumvarpið að ekki er einu sinni gert ráð fyrir núverandi almenningssamgöngum um landið, miðað við þá slæmu fjárhagsstöðu sem þar er. Það er undravert metnaðarleysi hjá ríkisstjórninni sem á tyllidögum talar um að taka stór skref í loftslagsmálum. Þar skiptir hinn mengandi einkabíll öllu máli.

Herra forseti. Mig langar einnig að tala örlítið um framhaldsskólana. Í afar vandaðri umsögn Kennarafélags Íslands ítrekar félagið þá afstöðu sína að framhaldsskólastigið sé enn ekki búið að jafna sig á langvarandi og alvarlegu fjársvelti. Er því skorað á fjárlaganefnd og Alþingi að taka málefni framhaldsskólanna alvarlega og bregðast við án tafar því að sú viðbót sem ríkisstjórnin ætli til skólastigsins sé ekki næg til að bregðast við þeim vanda sem þar sé.

Hvað varðar starfs- og iðnnám sem ríkisstjórnin talar um að efla, m.a. í stjórnarsáttmála en einnig í fjölmörgum ræðum, er alveg ljóst að sá tónn er með öllu holur. Starfs- og iðnnám er dýrara en bóknámið og verður ríkisstjórnin, sé henni alvara með eflingu þess náms, að leggja til frekara fjármagn til þeirra skóla sem hafa iðn- og starfsnám á sinni námskrá. Geri ríkisstjórnin það ekki þá er ekkert að marka þessi orð.

Það er annað á málefnasviði hæstv. menntamálaráðherra, þ.e. sjónvarpsjóður. Við í Samfylkingunni leggjum til 300 millj. kr. viðbætur í þann málaflokk og eru fyrir því fjölmargar ástæður. Stuðningur hins opinbera við leikið íslenskt sjónvarpsefni, sem aldrei fyrr hefur verið jafn eftirsóknarvert um allan heim, er algerlega til skammar. Sá stuðningur er í skötulíki. Við fögnum erlendum sjónvarpsþáttaseríum, dásömum, norræna þáttagerð, hversu öflugt frændfólk okkar er í gerð vandaðs sjónvarpsefnis, en á sama tíma gleymum við alveg að styðja sómasamlega við þessa gríðarlega mikilvægu starfsgrein. Íslenska sumarið í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð er löngu hafið. Við sópum að okkur verðlaunum.

Ríkisstjórnin ætlar ekkert að taka þátt. Það eru margar mjög spennandi þáttaraðir sem eru — eða öllu heldur voru í burðarliðnum, sem komast ekkert áfram núna vegna fjárskorts. Eins og við vitum er framlag frá Íslandi frumforsenda þess að hægt sé að sækja styrki úr sjóðum erlendis. Þar eru íslenskir kvikmynda- og sjónvarpsgerðarmenn, konur og menn. Þau eru mjög öflug að sækja í þessa sjóði en það eru alltaf þessar forsendur: Fékkstu styrk heima fyrir?

Hin frábæra þáttaröð Fangar, sem átti að fara í tökur á næstunni, er bara komin á bið þó að handritið sé löngu tilbúið og búið sé að „kasta“ í öll hlutverk. Það er alveg ömurlegt því að á sama tíma vilja erlendar sjónvarpsstöðvar mjög gjarnan kaupa íslenskt sjónvarpsefni Það skapar svo aftur auknar tekjur í ríkissjóð og á mörgum sviðum.

Við í Samfylkingunni biðjum því þingmenn um að íhuga vandlega að styðja við þá breytingartillögu okkar um að auka við þennan málaflokk.

Herra forseti. Mig langar í lokin að koma aðeins að málefnum lögreglunnar af því að við fáum í hverjum mánuði og á hverju misseri fregnir af algjöru ófremdarástandi í löggæslumálum um allt land og þannig hefur það verið allt of lengi. Þremur lögreglumönnum er gert að vakta 60.000 manna svæði í Kópavogi og Breiðholti að nóttu til. Lögregluembættin eru undirmönnuð og er ábendingum þess efnis svarað af hálfu dómsmálaráðherra með því að útgjöld hafi aukist stórlega til málaflokksins. Það liggur fyrir svart á hvítu að útgjöld til löggæslu og mannafla hafi ekkert verið aukin að neinu ráði, heldur megi rekja umtalsverða aukningu til kaupa á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna.

Í fjármálaáætlun kom fram að ætlunin væri að verja samtals 14 milljörðum kr. til kaupa á þyrlunum góðu en það er ekki mönnun lögreglu. Áfram þurfa lögreglumenn að þola niðurskurð, ofálag, undirmönnun, og þá erum við að tala um öryggisleysi fyrir borgara og mikinn hægagang í vinnslu og rannsókn mála sem kemur niður á málunum sjálfum, kemur niður á sakborningum, kemur niður á brotaþolum, kemur niður á öllu kerfinu okkar. Varla er ætlun Sjálfstæðisflokksins að einkavæða löggæsluna, er það?

Ég gæti haldið áfram í allan dag með þá liði í fjárlögum þar sem gera verður betur. Ekki gæluverkefni heldur þau atriði þar sem við verðum að gera betur til að koma í veg fyrir tjón.

Ég ætla að láta þetta nægja í bili varðandi einstaka liði og vísa frekar í nefndarálit fulltrúa okkar í hv. fjárlaganefnd.

Herra forseti. Þegar reka á heimili þarf hvort tveggja, að borga reikningana sem og gefa börnunum nauðsynlega fæðu og klæði. Það sama á við um ríkisreksturinn. Í þeim efnum virðist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætla að mistakast hrapallega. Af því að grunnstoðirnar, innviðirnir okkar halda áfram að molna þegar nauðsynlegu framlagi er ábótavant.

Við verðum að gera betur og vil ég hvetja hv. þingmenn til að líta á tillögur okkar í þingflokki Samfylkingarinnar sem eru fjármagnaðar að fullu og eru til þess gerðar að auka jöfnuð og velsæld í okkar ríka samfélagi.