149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar kærlega fyrir andsvarið. Hann ætti að vera með allar tölurnar algerlega á hreinu og allar forsendur nánast greyptar í lófa sér, enda hefur hann setið nótt við dag við að vinna þetta mál. Ég hef tekið eftir því að hv. þingmaður hefur setið hér linnulaust frá því að 2. umr. um fjárlög hófst og því ætti hann að vita að við í Samfylkingunni höfum aldrei sagt að verið sé að lækka bætur, aldrei. Við höfum aldrei haldið því fram. Þetta er útúrsnúningur, hv. þingmaður, sem er alltaf verið að spinna öðru hvoru.

Við erum að tala um og höfum alltaf talað um að milli 1. og 2. umr. var það framlag lækkað sem búið var að lofa. Hvers vegna er ég að tala um að við hefðum átt að halda þeim 4 milljörðum inni? Vegna þess að þeir 2,9 milljarðar sem nú er búið að ákveða að setja þarna inn eru alveg óútskýrðir, sá verðmiði. Einhverra hluta vegna kom hv. þingmaður ekkert inn á þetta og spurði ég þó um það áðan. Af hverju 2,9 milljarðar? Getum við þar með fellt alveg út krónu á móti krónu skerðingarnar? Nei, ég held ekki. Ég held að við vitum bæði að það gerist ekki þannig. Hvers vegna þá 2,9 milljarðar? Getum við ekki notað alla 4 milljarðana í þetta verkefni? Er það eitthvert lögmál að það sé ekki hægt, bara þegar kemur að öryrkjum?