149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:07]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara halda áfram að deila úr reynslubankanum. Ég hef upplifað það að í sumum tilfellum væri tungumálið ákveðin hindrun en ekki alltaf á þann hátt sem við gerum okkur grein fyrir. Ég hef t.d. heyrt af krökkum sem hafa hætt í íþróttum vegna þess að þau eru ekki nægilega góð í ensku. Þjálfarinn hefur verið enskumælandi, en þessir krakkar hafa ekki komið inn í landið með nákvæmlega sama enskubakgrunn. Það er kannski erfiðara fyrir fólk að átta sig á þessu því að áhersla okkar á íslenskukunnáttu er svo mikil að við gleymum því að í rauninni er enskan oft gríðarlega stór þáttur í því að vera fúnkerandi í íslensku samfélagi.

Ég man að ég þýddi einu sinni viðhorfskönnun Pólverja á Íslandi um hvernig væri að búa hér. Það var ein opin spurning um hvaða staki hlutur myndi bæta líf viðkomandi á Íslandi mest. Algengasta svarið var: Betri enskukunnátta. Það er það sem fólk upplifði sem væri sá staki þáttur sem myndi bæta líf þess á Íslandi, að kunna betri ensku, kannski vegna þess að oftar en ekki er þetta það tungumál sem beint er til fólks þegar það er af erlendum uppruna.

Mig langaði í lokin að biðja hv. þingmann aftur að beina þeim tveimur beiðnum til samflokkskonu hans, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, að tveir hlutir væru nauðsynlegir ef við ættum að geta þjónað þessum hópi vel, í fyrsta lagi að efla háskólamenntun með áherslu á menntun barna með annað móðurmál en íslensku og í öðru lagi að gera gangskör að útgáfu námsefnis fyrir þennan hóp.