150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

fjárframlög til saksóknaraembætta.

[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þetta oftar en einu sinni. Það liggur nákvæmlega ekki neitt fyrir um að þessi embætti séu ekki nægilega fjármögnuð til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin, þar með talið þessu tiltekna máli, jafn óviðeigandi og mér finnst — ég segi það bara hreint út — að við séum að ræða um það á Alþingi af eða á að fjármagna einstök rannsóknartilefni. Hjá þeim stofnunum sem heyra undir fjármálaráðuneytið kom fram beiðni um að bæta við mannskap. Við því hefur verið orðið. Við getum gert það m.a. með vannýttum eða ónýttum varasjóðum. Við erum með varasjóði á málaflokkum og síðan höfum við þess utan almennan varasjóð sem er ætlað að grípa ófyrirséðan útgjaldaauka sem ekki er hægt að bregðast við með öðrum hætti. Nákvæmlega það sama gildir um beiðni frá héraðssaksóknara, beiðni sem dagsett er 21. nóvember, nokkrum dögum fyrir 3. umr. fjárlaga. Auðvitað verður hún að fara í sinn farveg og til skoðunar í kerfinu milli dómsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis og hún fer í þann farveg með þeim skilaboðum að tekið verði jákvætt í það leiði skoðun það í ljós að þörf sé á viðbótarmannskap, eftir atvikum fjármögnun annarra verkefna hjá embættinu, höfum við sem sagt sjóði til að tryggja slíka fjármögnun sem eru eyrnamerktir þessum málefnasviðum. Allar fullyrðingar um að þessi embætti séu í einhverju fjársvelti eru órökstuddar.