150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

málefni Isavia.

[15:45]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt að í stjórnarsáttmálanum fjöllum við einmitt um þetta atriði og mikilvægi þess að ríkisvaldið hafi skýra eigendastefnu gagnvart fyrirtækinu af því að það hefur þessar sjálfstæðu rekstrarlegu forsendur sínar. Til staðar er almenn eigendastefna af hálfu ríkisins en ríkisstjórnin hefur verið að vinna í samstarfi við fjármálaráðuneytið, sem fer með hlutabréfið í Isavia, og undir þess stjórn að þessari eigendastefnu. Þar getum við sett inn hluti sem skipta máli, hvernig við viljum sjá fyrirtækið starfa að þeim áformum sem ríkið vinnur að. Þess vegna er mikilvægt að þær breytingar sem fyrirtækið gerir á uppbyggingu sinni samrýmist þeirri eigendastefnu og ég tel að svo geti verið.