150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:59]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að taka undir gagnrýni þingmanna sem telja einmitt túlkun hæstv. fjármálaráðherra heldur frjálslega á meðhöndlun varasjóðs. Við erum að tala um útgjöld vegna ársins 2020. (Gripið fram í.) Hér er verið að óska eftir heimildum til að ráða fólk til rannsóknar sem fer fram á næsta ári. Það er ekki einu sinni búið að auglýsa eftir þessu fólki. Þetta eru fyrirsjáanleg útgjöld á næsta ári sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar að mæta með því að beita varasjóði ársins 2019. Ég sé ekki hvernig það er í góðu samræmi við lög um opinber fjármál eða ákvæðið um að einungis megi grípa til þegar um ófyrirséð, óhjákvæmileg og tímabundin útgjöld er að ræða. Það er alveg ljóst að þessi rannsókn getur tekið töluverðan tíma. Mér þykir ekki góður bragur á þessu, ekki frekar en áður hefur verið gert, t.d. varðandi hinn fyrirséðasta útgjaldalið undangenginna ára sem er viðbótarframlagið til þjóðkirkjunnar sem hefur farið í gegnum fjáraukalög á hverju einasta ári (Forseti hringir.) þrátt fyrir að allir hafi vitað að þetta væri að koma. Það hefur aldrei verði tekið tillit til þess í fjárlagaumræðunni fyrir næstkomandi ár. (Forseti hringir.) Þetta er enn eitt dæmið um slíkt þar sem við erum bara að brjóta lög um opinber fjármál.