150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:06]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forseta kærlega fyrir hans góðu fundarstjórn hér í dag. Mér þykir miður að hæstv. fjármálaráðherra skuli ráðast með þessum hætti á forseta alls Alþingis. Mér þykir óskaplega miður að sjá hvað hæstv. fjármálaráðherra virðist vera vanstilltur í þessari umræðu, ræðst á forseta þingsins og rýkur á dyr. Mér finnst þetta eiginlega ekki boðlegt fyrir þessa umræðu. Við erum hér að ræða um nauðsynlegar fjárveitingar til að rannsaka [Kliður í þingsal.] eitt stærsta spillingarmál (Gripið fram í: Fundarstjórn forseta.) sem hér — við erum að ræða það að hæstv. ráðherra ætlar að taka einhverja peninga úr einhverjum varasjóð (Gripið fram í.) og við erum — fyrirgefðu, (Gripið fram í: Ekki umræða um varasjóð.) get ég … (Gripið fram í: Stöðva þessa umræðu, þetta er algjört rugl.) (LRM: Til skammar hreinlega.) (Gripið fram í: Til skammar.)

(Forseti (GBr): Forseti biður þingmenn að gæta hófs í orðum og vera málefnaleg undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta.)

Þakka þér fyrir, hæstv. forseti. Það er greinilegt að það eru fleiri en hæstv. fjármálaráðherra vanstilltir undir þessari umræðu. (Gripið fram í: Það er greinilegt.) Hv. þingmenn stjórnarflokkanna eru líka mjög vanstilltir. (Forseti hringir.) Ég óska eftir að fá að klára en það er alveg ljóst að nú er allt í einu búið að tala um að færa einhverjar fjárheimildir á milli málaflokka og það verður mjög fróðlegt (Forseti hringir.) að heyra í umræðunni á morgun hvaða stofnanir þurfa að draga enn meira saman seglin fyrst það á að færa fjármuni á milli flokka.