150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir umræðuna og ráðherranum fyrir að taka þátt í henni. Umræðan er mjög nauðsynleg en það sem eiginlega olli mér furðu þegar ég fór að skoða þessi mál var að þetta virðist hafa verið við lýði langt aftur í tímann. Meira að segja árið 2015 var eitt af baráttumálum Framsóknarflokksins í kosningum að jafna þennan kostnað. Það virðist ekki hafa gengið eftir, sem er eiginlega stórfurðulegt ef við hugsum um það. Þó að við séum lítil þjóð í stóru landi finnst mér með ólíkindum að raforka og hitunarkostnaður sé einum fjórða hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Maður skilur ekki í því. Enn fremur tek ég undir það heils hugar að ef við þurfum að jafna þennan kostnað og þurfum að ná í einhverja fjármuni til þess er bara sjálfsagt að taka þá af arði virkjananna. Þær eru flestallar úti á landi þannig að það segir sig sjálft að þar ættu að vera hæg heimatökin að jafna þetta.

Síðan vil ég líka benda á viðtal við formann Sambands garðyrkjubænda árið 2018 þar sem hann talar einmitt um að það sé sérkennilegt að stórnotendur raforku þurfi að borga meira fyrir notkun, bara af því að þeir starfa í dreifbýli. Þarna erum við að tala um gróðurhúsaframleiðendur sem framleiða matvælin og við erum líka að horfa á þetta vegna þess að þeir framleiða vistvæn matvæli. Þau matvæli sem við framleiðum með orku innan lands og með hitun þarf ekki að flytja inn. Það segir okkur að þá erum við líka að spara kolefnissporin og annað sem hlýtur að vera eitt af markmiðunum í þessu samhengi. Mér finnst liggja í augum uppi að það eigi að vera jafnt orkuverð alls staðar.