150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

jöfnun dreifikostnaðar á raforku.

[16:49]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er ágætt að þessi umræða fari fram og bara fínt að við tökum hana reglulega. Auðvitað þarf að jafna raforkudreifikerfið, auðvitað eigum við að horfa á uppbyggingu á starfsemi grænmetisbænda o.s.frv. Það er svolítið hvimleitt að heyra fólk endurtaka það sem hefur verið marghrakið, að þessi töluverða hækkun sem hefur átt sér stað tengist einhvern veginn orkupökkunum. Það þarf ekki nema að skoða tímalínuna til að sjá að hækkanirnar tvær, þ.e. stóru vendipunktarnir, urðu báðar fyrir upptöku orkupakkanna á sínum tíma. Það er fínt að það sé hrakið enn einu sinni.

Ég velti samt fyrir mér í ljósi þess að við horfum núna á ákveðnar þrengingar í raforkuaðgengi í Eyjafirðinum, á Vestfjörðum, til Vestmannaeyja og út á Reykjanesið og þeim hægagangi sem er á uppbyggingu, sérstaklega til þeirra dreifðu byggða sem hafa ekki enn aðgengi að þriggja fasa rafmagni, hvað hafi breyst í hagkerfi heimsins frá því að við byggðum upp raforkudreifikerfið á sínum tíma og þangað til núna sem gerir það að verkum að þetta er svona erfitt. Ég held nefnilega að ekkert annað hafi breyst en kannski vilji fólks til að leggja peninga í þá uppbyggingu sem er augljóslega þörf á. Þegar við tölum svo um kostnað hefur vilji kannski aukist til að rukka fólk á hátt sem í rauninni allir eru sammála um að sé ósanngjarn en fólk gerir engu að síður breytingar á gjaldskrá með þeim hætti og með þeim afleiðingum að fólk í dreifðum byggðum landsins borgar meira en það gerði áður hlutfallslega miðað við fólk í þéttbýli.

Ég segi eins og ég sagði í fyrri ræðu, þetta snýst um pólitískan vilja, þetta snýst um pólitíska ákvörðunartöku. Það er ekki við neinn annan að sakast en ríkjandi stjórn á hverjum tíma (Forseti hringir.) ef fólk er ósátt við það hvernig þetta lítur út.