151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

samþætting þjónustu í þágu farsældar barna .

354. mál
[17:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessum þremur málum. Ég verð að segja að hér eru á ferðinni góð mál, svo sannarlega, og ákaflega mikilvægt að við hlúum vel að börnum þessa lands. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það og þeim sem unnu þetta mál. Það hefur heilmikil vinna legið að baki.

Í andsvörum hér hefur aðeins verið komið inn á kostnað og sveitarfélögin. Ég hef, ekki síst sem sitjandi fulltrúi í fjárlaganefnd, svolitlar áhyggjur af þessum kostaði, ekki síst vegna þess að staða ríkissjóðs er náttúrlega afar slæm og skuldasöfnunin gríðarleg. Hallinn á þessu ári er um 270 milljarðar kr. og tæpir 320 milljarðar kr. á næsta ári. Þetta eru náttúrlega stærðir sem við höfum aldrei séð áður. Þess vegna óttast maður að erfitt verði að fjármagna svo viðamikið verkefni. Hæstv. ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að rætt sé um kostnað, að rætt sé um innleiðingarkostnað, að rætt sé um viðbótarkostnað, alls konar kostnað. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi orðið stofnun þrisvar sinnum. Það finnst mér hringja viðvörunarbjöllum þegar kemur að kostnaði.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í sveitarfélögin. Nú eru sveitarfélögin mörg hver afar illa stödd vegna veirufaraldursins og það hefur komið fram að allt að 50 milljarða kr. vanti í rekstur þeirra. Ríkissjóður er ekki að koma til móts við sveitarfélögin með neinum beinum hætti vegna faraldursins og í frumvarpinu er einmitt talað um að óvissa sé um kostnað sem fellur á sveitarfélögin. Í ljósi þess að við munum sjá fram á skerðingar á jöfnunarsjóði (Forseti hringir.) spyr ég hæstv. ráðherra: Getur hann virkilega fullyrt að sveitarfélögin komi til með að ráða við þetta verkefni fjárhagslega?