151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[19:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er kominn hingað til að mæla fyrir nefndaráliti 1. minni hluta utanríkismálanefndar. Undir það skrifa sá sem hér stendur og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Þá bárust fjölmargar umsagnir auk þess sem nefndin fékk til sín gesti sem getið hefur verið um í meirihlutaálitinu og nýttist það allt ágætlega til vinnunnar. Það komu margar athugasemdir og kom fram nokkuð hörð gagnrýni bæði í umsögnum og hjá gestum nefndarinnar. Í kjölfarið lagði meiri hluti nefndarinnar til talsverðar breytingar. Þær hafa ratað inn í frumvarpið sem nú liggur fyrir þessu þingi og er alveg full ástæða til að fagna því þar sem þær voru til umtalsverðra bóta. Þær eru þríþættar og lúta í fyrsta lagi að því að áskilið verði að sendiherrar, sem skipaðir verði tímabundið án auglýsingar, hafi háskólamenntun og reynslu í alþjóða- og utanríkismálum eða sértæka reynslu sem nýtist í embætti.

Í öðru lagi veitir frumvarpið ráðherra heimild til að kalla sendiherra, sem skipaðir eru tímabundið, heim til annarra starfa innan skipunartíma þeirra. Í þriðja lagi er gerð krafa um að skipuð verði hæfnisnefnd sem verði ráðherra til ráðgjafar um hæfni og almennt hæfi mögulegra sendiherraefna, en að ráðherra taki að sjálfsögðu endanlega ákvörðun. Þrátt fyrir ýmsar jákvæðar breytingar frá fyrra frumvarpi og þó að 1. minni hluti sé um margt sammála meginmarkmiðum þess sem stendur, er enn þá of margt sem út af stendur til að málið geti talist alveg fullbúið. Þó er rétt að nefna það hér að málið hefur samt sem áður fengið ágætisumfjöllun í nefndinni og formenn nefndanna hafa kallað inn gesti og umsagnaraðila eftir beiðnum, þannig að ekki er verið að klaga yfir því.

Við stöndum samt frammi fyrir risastórum, alþjóðlegum áskorunum vegna fátæktar, vegna styrjalda, vegna hamfarahlýnunar, og nú bætist við heimsfaraldur og guð má vita hvað ríður yfir næst. Þar að auki erum við stödd í miðri stafrænni tæknibyltingu þar sem hvorki sýslumörk né landamæri eru jafn nytsöm og þau hafa þótt áður. Þar fyrir utan lifum við í síkviku alþjóðaumhverfi og stöndum andspænis nýrri heimsmynd sem er allt öðruvísi en lög um utanríkisþjónustu voru t.d. þegar þau voru sett á sínum tíma. Mín skoðun er sú, og okkar, á þessu áliti að ekki sé hægt að takast á við þetta nema með miklu fjölþjóðlegu samstarfi. Þess vegna þurfum við góða og skilvirka utanríkisþjónustu og sú þörf fer vaxandi. Utanríkisþjónustan þarf að vera í fyrirsvari í varnarmálum, loftslagsmálum, viðskiptasamningum, þróunarmálum, norðurslóðamálum, auðlindamálum og öllum þeim fjölmörgu alþjóðlegu skuldbindingum og áskorunum sem framtíðin kann að setja okkur í. Starf og eðli utanríkisþjónustunnar hefur líka breyst mikið á síðustu áratugum og mun taka mjög miklum breytingum þegar fram líða stundir.

Breyttur heimur felur í sér áskorun en líka tækifæri fyrir smáþjóð eins og Ísland. Þess vegna skipta hugvit, reynsla og þekking og starfsfólk utanríkisþjónustu höfuðmáli og er mjög mikilvægt að vanda til verka þegar gerðar eru breytingar á lögum um hana. Það skiptir yfir höfuð mjög miklu máli að utanríkisþjónustan búi á hverjum tíma yfir úrvalsfólki, en á sama tíma sé hún nógu sveigjanleg til að takast á við þessar nýju aðstæður. Það er því mjög ánægjulegt að skipan embættismanna í utanríkisþjónustu sé til skoðunar hjá ráðherra af því að það er nauðsynlegt að tryggja jafnræði, gagnsæi og fagmennsku við ráðningar svo hægt sé að skapa farsæla umgjörð utan um mannauð utanríkisþjónustunnar og byggja upp trausta og góða og vel spilandi liðsheild.

Þá þarf auðvitað líka að auka jafnrétti kynjanna og það hefur ráðherra talað um á fundum að sé eitt af markmiðunum. Ég held að það sé líka nauðsynlegt að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk með nýja þekkingu og sýn á utanríkismál til að gera hana breiðari. Þess vegna er löngu tímabært að ráðast í heildarendurskoðun á lögum nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu.

Það er vissulega sérkennilegt, þó að boðuð séu framfaraskref í frumvarpinu, að festa í lög tiltekinn fjölda sendiherra áður en sú heildarendurskoðun hefur verið gerð. Með frumvarpinu er lagt til að hámarksfjöldi skipaðra sendiherra án staðarákvörðunar verði aldrei fleiri en fjöldi sendiskrifstofa. 1. minni hluti tekur ekki afstöðu til æskilegs fjölda sendiherra hverju sinni en telur þó óheppilegt að þessar breytingar séu ekki rökstuddar með skýrum hætti. Fámennt starfslið utanríkisþjónustunnar sinnir verulega fjölbreyttum og krefjandi verkefnum í æ flóknari veruleika, eins og hér hefur verið komið inn á, á alþjóðavettvangi. Það er því töluvert erfitt að sjá hver ávinningurinn yrði af þeirri stefnu t.d. að fækka sendiherrum, eins og komið hefur fram í máli ráðherra, sérstaklega án þess að ráðist sé í heildarendurskoðun og úttekt á utanríkisþjónustu Íslands.

Fyrsti minni hluti tekur út af fyrir sig jákvætt í þá heimild ráðherra að skipa einstakling tímabundið án auglýsingar, en þó séu settar málefnalegar skorður þar sem engar voru áður. Þó vantar rökstuðning fyrir því að ráðherra geti skipað áfram um fimmtung sendiherra með þessum hætti tímabundið til fimm ára. Það eru hvorki færð málefnaleg rök fyrir þeim fjölda né þeim tíma sem ráðherra getur skipað sendiherra. Það væri örugglega hægt með örlítilli áframhaldandi vinnu og með þessari heildarendurskoðun á lögum um utanríkisþjónustu yrði það örugglega gert. Það yrði betur rýnt í starfsemina og markmið í víðara samhengi og með víðtækara samráði. Það gætum við alveg örugglega lært af öðrum þjóðum, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum sem brugðist hafa við alþjóðaumhverfinu og nýrri heimsmynd með markvissari hætti en okkur hefur auðnast.

Þess vegna vil ég að lokum spyrja hvort mögulega hafi verið byrjað á öfugum enda og hvort frumvarpið sé yfir höfuð tímabært og tilbúið til afgreiðslu áður en ráðist er í slíka heildarendurskoðun.