152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

skipulag háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.

[15:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og gott að fá það á hreint að í rauninni verði ekki horfið frá fagskrifstofum heldur sé það kannski orðum aukið í þessu viðtali. Hæstv. ráðherra talar um nýsköpun í stjórnsýslunni. Ég hjó nefnilega eftir því í þessu viðtali við Innherja á Vísir.is að hæstv. ráðherra vildi horfa til einkageirans, t.d. varðandi verkefnadrifna nálgun, störf án staðsetningar og skipulag vinnunnar innan ráðuneytisins. Þetta er nú ráðuneyti nýsköpunar hvar sem hún á sér stað og staðreynd málsins er auðvitað sú að innan opinbera kerfisins hefur á síðustu árum átt sér stað alveg gríðarlega mikil nýsköpun varðandi þá þjónustu sem er veitt, þær afurðir sem eru framleiddar handa almenningi og bara allt sem nöfnum tjáir að nefna. Mig langar því að spyrja hvort ráðherrann sé nokkuð að gleyma þessum þætti, vegna þess að ef svo er verður t.d. horft fram hjá því að verkefnadrifin nálgun og störf án staðsetningar hafa verið á blússandi (Forseti hringir.) fleygiferð á síðustu tveimur árum og hið opinbera stendur í dag bara mjög framarlega í þeim málum. (Forseti hringir.) Þannig að einkageirinn er nú ekki eina fyrirmyndin sem hæstv. ráðherra mætti líta til.