152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:20]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég hugsa að það hafi enginn séð þetta fyrir þegar vextir voru færðir niður í það sögulega lágmark sem hér hefur verið lýst. Það fylgdi örugglega góður hugur í þágu þeirra sem voru að berjast í bökkum, fyrirtækjanna sem voru að ströggla og safna skuldum. En ég hugsa að fæstir hafi gert sér grein fyrir þessum hliðarverkunum sem var húsnæðisbólan, að skyndilega sáu menn tækifæri til að endurfjármagna eða stækka við sig, allt í einu voru vextir orðnir lágir og orðið hagfellt að gera eitthvað í húsnæðismálunum. Það held ég að hafi ekki verið raunveruleg meining með þessari vaxtalækkun og hún er að mínu viti að stórum hluta þessi meginástæða innlenda faktorsins í verðbólgunni sem er síðan að færa vextina aftur upp. En maður veltir fyrir sér þeirri hugmynd sem hefur verið hreyft nýverið úr stjórnarherbúðunum að það megi kannski draga húsnæðiskostnaðinn úr vísitölunni eins og þykir sjálfsagt í nágrannalöndunum. Er ekki alveg tímabært að kippa með þeim hætti verðbólgunni niður í eitthvað innan við 4% ef það mætti lukkast og þá vera samanburðarhæfari við önnur lönd sem eru ekki endilega með húsnæðismarkaðinn inni í sinni vísitölu?

Ég fagna því sem hér kom fram fyrir tveimur vikum í sambærilegum spurningatíma þegar fjármálaráðherra staðfesti að nú væri hafin sú langþráða vegferð að taka til heildarendurskoðunar almannatryggingakerfið og ég spyr líka: Mun ekki örugglega verða bætt þar í, ekki aðeins að hreyfa liðum í millum heldur verður ekki örugglega bætt þar í þegar kemur að þeirri heildarendurskoðun?