152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram í samhengi við tekjujöfnun í samfélaginu að við erum hér að ræða um vinnumarkaðinn og starfandi og þá sem fá bætur úr atvinnuleysistryggingum eða hafa fengið aðrar sérstakar stuðningsaðgerðir. Gögnin sem sótt er í eru fyrst og fremst frá ríkisskattstjóra eftir álagningu og síðan eftir atvikum frá Hagstofunni. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að fylgjast með þessu. Aðgerðir sem við gripum til voru almennt sérsniðnar að vandanum. Í sumum tilvikum sáum við stuðningsaðgerðir renna til fjársterkra fyrirtækja, við gerðum það bara með opin augun, það er bara staðreynd. Það var vegna þess að við vildum að aðgerðirnar væru almennar og það var ljóst að við vildum frekar beita almennum aðgerðum með nokkuð háum þröskuldum fyrir það að komast inn í úrræðin. Ég nefni sem dæmi viðspyrnustyrki sem reyndar eru fyrir smærri fyrirtæki, þar höfum við verið að vinna með 40% tekjufallsviðmið og að því gefnu að þú uppfyllir það grundvallarskilyrði og nokkur önnur þá var í raun og veru ekkert spurt að því hvernig efnahagsreikningur fyrirtækisins leit út að öðru leyti. Þetta held ég að hafi verið skynsamlegt. Það hefði kallað yfir okkur óendanlegt flækjustig að ætla að fara að gera upp á milli aðila og ég veit ekki hversu skynsamlegt það hefði verið. Að öðru leyti notuðumst við við stuðningsaðgerðir sem hafa reynst vel og ég nefni kannski sérstaklega þá sem hafa fengið barnabætur og ég rifja það upp að (Forseti hringir.) við fórum að þrepaskipta því kerfi í okkar aðgerðum.