152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:34]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar í tengslum við efnahagslega endurreisn eftir Covid-19 er að vaxa út úr vandanum. Þetta er ekki óþekkt leið, að vaxa, að skapa nýtt o.s.frv. Má t.d. nefna það þegar við gengum í gegnum hrunið 2008, þá sáum við mikla aukningu í nýsköpun. Sama gerðist nokkrum árum seinna þegar olíuverð hrundi og olíuiðnaðurinn í Noregi fór yfir á nýsköpunarsviðið. En þó svo að við höfum lagt góðar upphæðir í nýsköpun á undanförnum tveimur árum þá er það þannig þegar horft er til þeirrar fjármálaáætlunar sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram fyrir jól að þar er að finna stórfellda lækkun á framlögum til nýsköpunar. Þannig eru útgjöldin 2022 áætluð tæpir 30 milljarðar en verða skorin ansi skarpt niður þar til þau lækka í 20 milljarða árið 2025. Þarna virðist eins og hljóð og mynd fari ekki alveg saman. Það er erfitt að skilja hvernig ætlunin er að stuðla að vexti í nýsköpun á sama tíma og þau útgjöld sem ríkið setur í þetta lækka um þriðjung. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig er ætlunin að styðja græna nýsköpun og nýsköpun almennt til að vaxa út úr þessu? Það er vilji minn að hæstv. ráðherra geti skýrt þetta og gefið nýsköpunarsamfélaginu von um að raunverulega eigi að fjárfesta í nýsköpun á kjörtímabilinu.