152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[16:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir samtalið við okkur hér í dag þótt ég deili ekki endilega skoðun með honum, bæði hvað varðar fortíð og framtíð. Við erum á tímamótum og framtíðin er óviss en það eru auðvitað ákveðnir hlutir sem þarf að horfast í augu við, ekki bara það sem búið er að gerast heldur hvað við ætlum að gera í framhaldinu. Þegar maður gluggar í fjármálastefnuna þá kemur m.a. fram þar að launaþróun eigi að samræmast verðstöðugleika eins og það er kallað. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra minntist á eigin sögu, hvað varðar húsbréf og þess háttar, vil ég nefna að ég er búinn að upplifa þrjár krísur. Þegar ég var ungur maður, rúmlega tvítugur, að reyna að kaupa mér íbúð fékk ég að kenna á verðbólgu sem hljóðaði upp á 100%. Þetta er í mínum huga hinn íslenski verðstöðugleiki, hann er svona. Með reglulegu millibili þarf íslenska þjóðin að takast á við svona krísur. Við erum að sjá mikið af fólki sem tók óverðtryggð lán fyrir einhverju. Síðan þá hefur verðbólga aukist um helming. Við sjáum nú verðbólgu upp á 5,7% en fólk tók lán í góðri trú þegar verðbólga var 2% eða 3%. Þetta er veruleg breyting. Ég spyr þá ráðherra, í ljósi þess að þessi staða er uppi og fólk er farið að tapa sínum kaupmætti, hvernig hann hyggist beita sér fyrir því í næstu kjarasamningum að hægt sé að semja um kaupmáttarauka.