152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Já, við fylgjumst með á mörgum sviðum. Við fylgjumst með því sem er að koma frá Seðlabankanum beint m.a. og í þessu samhengi tengist fjármálastöðugleika í landinu. Fyrir ekki mörgum dögum síðan átti fjármála- og efnahagsráðuneytið fundi með öllum kerfislega mikilvægu bönkunum, hverjum fyrir sig, í þeim tilgangi að afla upplýsinga um stöðu helstu viðskiptavina og stöðu heimilanna hjá bönkunum. Þar fer algjörlega saman niðurstaðan úr því samtali við það sem við sjáum í gögnum frá Seðlabankanum sem horfir yfir fjármálamarkaðinn, að vanskil á Íslandi eru í algeru lágmarki bæði hjá fyrirtækjum og heimilum. Inneignir eru að vaxa í fjármálakerfinu. Staðan séð innan úr fjármálakerfinu ber ekki vitni um alvarlega stöðu heimilanna í landinu. En ég held að það sé hins vegar rétt hjá hv. þingmanni að það getur breyst nokkuð hratt (Forseti hringir.) og það þarf að fylgjast með því nákvæmlega frá mánuði til mánaðar (Forseti hringir.) og ég ítreka það að verðbólga kemur verst við tekjulægstu heimilin.