152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að láta þess getið hér í upphafi að við vorum að hlýða á hv. þingmann, sem kemur inn sem varaþingmaður, sem er einmitt dæmi um hið andstæða við það sem ég var að ræða í fyrri ræðu og í andsvari, að stundum koma hingað inn í þingið þingmenn sem telja að við getum farið betur með opinbert fé og finna og benda á leiðir til þess að gera það og hv. þingmaður hefur gert það með myndarbrag og þannig að eftir hefur verið tekið. Varðandi Allir vinna verð ég bara að segja að í fyrsta lagi er þetta dæmi um það að við búum við þrískiptingu ríkisvalds og eftir að mál kemur inn á þingið þá er það komið á forræði þingsins þannig að þá ræður fjármálaráðuneytið ekki eitt og sér. Við gerum það fram að framlagningu máls en ekki eftir það. Það komu ábendingar bæði varðandi Allir vinna átakið frá okkur og sömuleiðis varðandi framlengingu ívilnana vegna tengiltvinnbifreiða sem ráðuneytið taldi mikilvægt að væru hafðar með hér við ákvarðanatöku í þinginu. Ég vil meina að þegar við lítum á heildarumfangið af því að framlengja Allir vinna átakið, sömuleiðis í tengiltvinnbifreiðatilvikinu, og þegar við skoðum heildaráhrifin af þessu þá rúmist þau vel innan þess sem við gætum kallað einhvers konar hættumörk í því að vera að örva of mikið. Og það má ekki gleyma því. Þingið var að hlusta og sagði: Gott og vel, við heyrum hvað þið segið en það þýðir bara að við ætlum ekki að láta átakið framlengjast um heilt ár heldur var annars vegar framlengt um sex mánuði og svo átta mánuði, ef ég man rétt, aðeins eftir tegund þeirrar starfsemi sem gat fengið endurgreiðsluna. Þannig að ég vil meina að það hafi fundist ágætismillivegur í þessu.