152. löggjafarþing — 34. fundur,  7. feb. 2022.

horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu Covid-19, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:52]
Horfa

Thomas Möller (V):

Ég þakka ráðherra fyrir svörin en ég tel þau ekki fullnægjandi. Mig minnir að þú, hæstv. ráðherra, hafir lagt fram þetta frumvarp sjálfur þannig að þú berð nú töluverða ábyrgð á þessu. Ég vil benda á að í dag er mikið talað um það sé lóðaskortur og það sé lóðaskorturinn sem valdi verðbólgunni. Helmingur verðbólgunnar er vegna hækkunar á íbúðaverði. Síðan hefur komið fram í umræðunni að það er líka mikið framboð af lánsfé sem hefur orsakað þetta. Ég vil benda á að með einföldum útreikningi sést að 7,2 milljarða endurgreiðsla á virðisaukaskatti er vegna rúmlega 35 milljarða vinnu iðnaðarmanna við viðhald. Þetta samsvarar lauslega 2.500 ársstörfum iðnaðarmanna sem í dag eru bara að vinna við viðhald en ekki nýbyggingar. Raunin er að ríkisvaldið er að færa vinnuafl úr nýbyggingum yfir í viðhald. Þetta eru ríkisafskipti sem ég tel algerlega óþörf. Þetta er sóun á peningum og ég hvet hæstv. ráðherra til að leggja til að þetta verði leiðrétt og þessu átaki verði hætt.

(Forseti (BLG): Forseti minnir ræðumenn á að beina orðum sínum að forseta.)