Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2022.

skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.

43. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og þakka fyrir stuðning hans við þessa tillögu. Hv. þingmaður nefndi hér nokkur hús, Þjóðleikhúsið, Safnahúsið, Stjórnarráðshúsið; mjög fallegar byggingar allt saman og ég er algerlega sammála honum um það. Þótt það komi kannski þessari tillögu ekki við þá stendur t.d. til að byggja við Stjórnarráðshúsið og þar er tillaga sem hefur verið samþykkt sem mér finnst orka tvímælis, í arkitektúr sem er á allt annan veg en húsið sjálft, Stjórnarráðshúsið, af sumum kallaður svokallaður brútalískur arkitektúr. Við þurfum að mínum dómi að vanda okkur í þessum efnum og ég spyr sjálfan mig hér og nota tækifærið: Er nauðsynlegt að byggja við Stjórnarráðshúsið? Ef það er orðið svona þröngt um starfsemi Stjórnarráðsins, þeirra sem starfa þar, hvers vegna má þá ekki horfa t.d. til Safnahússins, að það taki við hlutverki Stjórnarráðshússins? Þá væri jafnframt hægt að nýta Stjórnarráðshúsið sem einhvers konar móttökuhús. Ég varpa þessu bara fram í þessari umræðu hér vegna þess að það skiptir verulegu máli með hvaða hætti það er gert þegar verið er að byggja við hús af þessum toga. Ég veit vel að það var samkeppni í þessum efnum og þá spyr maður sjálfan sig: Þarf þá að taka einhverri tillögu? Er ekki hægt að hafna þeim öllum og skoða aðra kosti? Það var víst skoðað á sínum tíma, held ég, að flytja starfsemina yfir í Safnahúsið en ég hef ekki séð nákvæmlega hver rökstuðningurinn var fyrir því að svo yrði ekki gert. (Forseti hringir.) En allt er þetta eitthvað sem er hægt að taka til umræðu í þessum þingsal (Forseti hringir.) og við ættum svo sannarlega að gera það.