154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:22]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrir þetta frumvarp sem hér er kynnt, því að ég held að það sé til bóta. Það er rétt að ég útskýri það að ég var með drauma um að gerast bóndi á yngri árum og kynnti mér búskaparhætti bæði í Borgarfirði og hjá gömlu herraþjóðinni í Danmörku, í Þýskalandi og Skotlandi en ákvað þegar raunsæið helltist yfir mig að það væri affarsælast að gerast geisladiskabóndi. En hjarta mitt slær mjög með bændum því ég er af þeim kominn og við flest og þetta er ein af grunnstoðum íslenska samfélagsins í gegnum tíðina, aldirnar og árin. En staða bænda í dag er með þeim hætti að það væri mjög erfitt t.d. fyrir mín börn að hugsa sér það að ganga inn á þennan akur þótt þetta sé sannarlega rómantísk og falleg iðja, að rækta landið sitt og lifa af ávöxtum þess og dreifa hollmeti með Íslendingum öllum og þess vegna til útflutnings.

Ég hefði gjarnan viljað sjá áherslur matvælaráðherra, nú tala ég bara sem velmeinandi ráðgjafi svona í stóra samhenginu, eftir að þessi stjórnarráðsbreyting varð öll og landbúnaðarráðherra var ekki lengur þannig merktur. Þá upplifa ýmsir bændur sem ég hef talað við að þeir séu enn neðar og verr settir í kerfinu. Svo koma bölvaðir vextirnir inn í umhverfið eins og það er núna. Mér brá verulega við það þegar ég fór að bera saman verðið á mjólkurlítra sem bóndinn fær í dag við verðið á drykkjarvatninu, bara kranavatninu, sem er selt úti í búð. Bóndinn fær 175 kall fyrir mjólkurlítra með öllum þeim tilkostnaði sem fylgir, fóðri og áburði og öllu því. En vatn úr flöskunni beint úr krananum er selt á 199 kr. Þetta segir okkur ansi mikið um hvert við erum komin, hvernig við erum að virða alla vinnuna sem fer í það að reka bú, stórt kúabú með öllum þeim tilkostnaði.

Ég verð að viðurkenna að áherslur í matvælageiranum hafa að verulegu leyti snúist um sjávarfangið, sjávarstefnuna, kvótann og allt þetta og stórar nefndir skikkaðar til starfa. Myndi hæstv. matvælaráðherra sjá möguleika á því að efna til víðtæks starfs til að hreinlega endurmeta þetta kerfi? Þetta er gamalt kerfi og líkt og annað sem ég nefndi hér í störfum þingsins fyrr í dag stagbætt og illskiljanlegt og það er ekki nægilega hvetjandi fyrir ungt fólk að stíga inn á þennan vettvang. Íslendingar hafa í auknum mæli á síðustu árum og áratugum verið að veigra sér við því að fá ryk á puttana, hvað þá mold eða mykju. Svo er vinnan sem þessu fylgir. Það eru engin frí frá því að fara að mjólka, það eru engin frí frá því að slá og taka saman og allt þetta, þú ert að allan daginn, allan sólarhringinn, allt árið. Þess vegna segi ég: Við hljótum að geta fundið leið til að bændur á Íslandi geti lifað vel af störfum sínum og afurðum rétt eins og útvegurinn fann sína leið, þótt umdeild væri með öllu kvótasetningarbraskinu og veðheimildunum og öllu því. Ég er ekki að leggja til að fara þá sömu leið. Ég er að leggja til að við búum til alvöruþankatank um landbúnað framtíðarinnar á Íslandi, stundum kallað harðbýlt land fyrir landbúnað á ytri mörkum hins byggilega heims.

En ég er líka áhyggjufullur yfir því sem ég hef upplifað á þingum og fundum að undanförnu. Umhverfissinnar hafa eðli málsins samkvæmt háa rödd í dag og eru í miklum forgangi og þau málefni öll á ríkisstjórnarvettvangi og lærðir menn eru að bera saman sauðkindina við fjórhjólajeppa þegar kemur að kolefnisspori og öllu því. Það tel ég grafalvarlegt ef niðurstöður vísindamanna og umhverfissinna eru að framleiðsla á rauðu kjöti sé hreinlega skaðleg fyrir ímynd Íslands og loftslagið. Það er tiltekið á sérstökum stöðum, kannski á afréttum og annars staðar þar sem blómleiki grassins er ekki mikill og annað slíkt.

Ég tel afar mikilvægt að við tökum þessa umræðu. Hvernig getum við boðið kynslóðum framtíðarinnar upp á það að starfa af fúsum og frjálsum vilja á vettvangi landbúnaðar og matvælaframleiðslu án þess að ganga fram af sér í áreynslu og án þess að þrengja þannig að eigin hag og fjölskyldunnar að aldrei sé komist úr rauðu tölunum yfir í svartar? Það er því miður staðreynd í dag að það eru allt of margir fastir í þannig skuldafjötrum. Kröfur frá Evrópu um nýmóðins eða nútímavæðingu fjósanna og ýmsan tæknibúnað hafa lagst ofan á fólk til viðbótar við allt annað. Það er mjög erfitt fyrir marga að borga af þessu.

Ég trúi því að við getum búið til vottunarkerfi hérna á Íslandi sem er í rauninni staðfesting á búskaparháttunum og hvernig framleiðslunni er háttað og hvernig eiturefni og pensilín er notað í miklu hófi miðað við flest nágrannalöndin. Það gladdi mig mjög nýlega í Bandaríkjaför minni í sumar að sjá Icelandic Fish á stóru skilti á bændamarkaðnum fræga, Farmers Market í Los Angeles. Icelandic Whole Foods, Icelandic Vegetables og annað slíkt, það hlýtur að vera markmiðið að geta sett það utan á vöruna, selt hana hér innan lands, tryggt fæðuöryggi á Íslandi, tryggt blómlegar byggðir. Við erum með sjálfbært vistvænt og grænt land í hugum flestra þó að við séum alltaf að reyna að gera betur í þeim efnum. Beint frá býli bröndum við vöruna, förum í sókn á vettvangi landbúnaðarins. Ég bið hæstv. matvælaráðherra að ganga til fundar við bændur í norðrinu, austrinu, vestrinu og suðrinu, ræða við þá og efna til víðtæks samráðsvettvangs með besta fólki um það hvernig við getum gert þetta að sjálfbærum og arðbærum búskap. Það þarf enginn að harma það þó að það hafi ekki verið hægt að gera einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar að ráðherra í norðaustrinu, að það séu engin tvímæli um að við séum með öflugan og vel meinandi landbúnaðarráðherra í 150% starfi við það að bæta umhverfið svo vel verði við unað. En það kallar að líkindum á uppskurð á núverandi kerfi og nýjar nálganir í því að bændur þurfi ekki að vera einhvers konar hornrekur, að menn þurfi ekki að hafa horn í síðu íslenskra bænda fyrir það að leggja jafn mikið á sig og raun ber vitni við að framleiða hollmetið sem við kunnum að meta hér og kjósum miklu frekar heldur en hraðfæðið útsprautaða og eitraðar grænmetisblöðkur sem ræna menn heilsunni. Þetta er mín áskorun til hæstv. matvælaráðherra, landbúnaðarráðherra Íslands. Ég þakka fyrir þetta frumvarp sem er skref í rétta átt.