154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[15:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og að fylgja þessu máli úr hlaði, sem er náttúrlega mjög mikilvægt, og ánægjulegt að það skuli vera komið í þingið vegna þess að það hefur aldrei verið brýnna en nú að styrkja stoðir undir íslenskri matvælaframleiðslu og landbúnaði í landinu. Við þekkjum að það er búin að vera umræða meðal ungra bænda í landinu um slæma stöðu þeirra. Það var fjölsóttur og mikilvægur fundur í Kópavogi fyrir nokkru síðan, í Salnum, og í framhaldi hefur hæstv. ráðherra skipað starfshóp til að rýna stöðuna og reyna að finna leiðir til þess að til að létta undir með þeim bændum sem búa við hvað versta stöðu fjárhagslega vegna utanaðkomandi aðstæðna og hárra vaxta og verðbólgu. Ég bind að sjálfsögðu miklar vonir við þennan starfshóp og að við sjáum einhvers konar vaxtabætur og rekstrarstuðning, ég held að það sé afar mikilvægt. Ég vildi bara koma þessu að hér og þakka ráðherra fyrir að hafa skipað þennan starfshóp og ég bind miklar vonir við hann, svo ég segi það hér.

Varðandi þetta frumvarp þá tek ég undir þessi meginmarkmið sem koma þar fram, sem er að stuðla að þessum hagfelldu starfsskilyrðum í landbúnaðinum og mikilvægt að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Það er nú einu sinni þannig að öll ríki styðja myndarlega við sína landbúnaðarframleiðslu og verja hana eins og kostur er og ekki síst Evrópusambandið. Það er einmitt fróðlegur kafli í þessu frumvarpi um Evrópusambandið og landbúnaðarstefnu þess. Það hefur líka verið og er þannig meðal Evrópusambandsins að þegar verið er að semja um tollkvóta og annað slíkt þá er Evrópusambandið duglegt að hafa bændur með í ráðum á þeim fundum og halda þeim upplýstum í slíkum samningaviðræðum og það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt. Ég held að hér höfum við ekki staðið okkur nægilega vel hvað það varðar þegar kemur að því að semja um tollkvóta, að við höfum ekki nægilegt samráð eða samstarf við landbúnaðinn þegar að því kemur og þar þurfum við að bæta okkur. Þetta er mín skoðun og ég hef aðeins skoðað þessa hluti, þannig að ég vona að við eigum eftir að sjá það í framtíðinni að landbúnaðurinn verði hafður með í öllum ráðum þegar kemur að málefnum sem varða landbúnaðinn og sérstaklega náttúrlega tollkvótanum.

Það er mikilvægt að bregðast við þessari stöðu sem upp er komin, eins og segir m.a. í frumvarpinu, með því að gera þessi starfsskilyrði afurðastöðva betri, sérstaklega í sauðfé og svo stórgripum, og það þarf að tryggja að slík breyting komi bæði neytendum og framleiðendum til góða. Að því sögðu telur þingflokkur Sjálfstæðismanna að frumvarpið nái ekki nægilega vel markmiði sínu og setti ákveðna fyrirvara við það en við styðjum að sjálfsögðu meginmarkmið frumvarpsins. Það er mikilvægt að það komi fram. Það er nú einu sinni þannig að flestar afurðastöðvar stórgripa og sauðfjár hér á landi eru ekki í eigu frumframleiðenda að undanskildum afurðastöðvum fyrir hvítt kjöt, eins og í kjúklingaframleiðslunni, vegna þeirra erfiðleika sem reksturinn hefur gengið í gegnum undanfarin ár. Það er verið að slátra sífellt færri skepnum og fastur kostnaður verður hlutfallslega hærri. Við höfum séð afurðastöðvar enda í verðstríði hver við aðra að frumkvæði smásölu sem lækkar það verð sem fæst fyrir afurðirnar. Þetta hefur orðið til þess að afurðastöðvar hafa í sumum tilfellum þurft að auka hlutafé til að halda rekstrinum áfram sem þynnir út hlut bænda. Ég tel að betri leið til að stuðla að markmiðum frumvarpsins væri t.d. að leyfa samruna afurðastöðva með skilyrðum um að hagsmunir neytenda og framleiðenda verði betri. Með slíkum samruna yrði þá stærðarhagkvæmnin meiri og rekstrarskilyrði myndu að öllum líkindum batna auk þess sem hægt væri að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar til að auka skilvirkni afurðastöðvanna.

Hér hefur aðeins verið rætt um þessa finnsku leið eða að horfa til Finnlands. Ég er ekki alveg sannfærður um að það sé nú kannski það sem er nærtækast þar sem staðan hér er jú með öðrum hætti en hún var í Finnlandi þegar það var ráðist í breytingarnar. Í Finnlandi voru þegar komnar stórar, hagkvæmar afurðastöðvar áður en breytingarnar voru gerðar sem leyfðu samninga milli frumframleiðenda landbúnaðarafurða. Þar sem byrjunarreitur þjóðanna, ef svo má að orði komast, er ekki sá sami, þ.e. Íslands og Finnlands, þá er mikilvægt að skoða aðrar aðferðir til að bæta þessi starfsskilyrði afurðastöðvanna. Ég ætla að vona að hv. atvinnuveganefnd horfi á þennan þátt.

Síðan er talað í frumvarpinu um eðlileg takmörk, að þau séu sett við ávöxtunarkröfu hlutafjár eða stofnfjár óskyldra aðila. Það getur verið svolítið snúið og erfitt að túlka hver eðlileg takmörk séu og betra í slíkum tilfellum að setja mælanlega kvarða til að skera úr um það hvenær farið sé yfir þessa ákveðnu línu. Ég held að það sé ekki rétt að setja takmörk á ávöxtunarkröfu hlutafjár eða stofnfjár óskyldra aðila þar sem tækifæri skapast til samkeppni ef ávöxtunarkrafan er orðin hærri en gengur og gerist. Þetta eru atriði sem ég vildi koma á framfæri, bara til þess að það verði farið yfir þetta í nefndarvinnunni sem fram undan er. Það starf er náttúrlega mjög mikilvægt því að þetta mál er þess eðlis að það skiptir landbúnaðinn mjög miklu máli. Við erum öll saman í því, vona ég, að reyna að styrkja stoðir íslenskrar matvælaframleiðslu. Hún er okkur mjög mikilvæg. Við verðum líka að horfa til þess að það styttist mjög í það að sökum fólksfjölgunar í landinu þurfi að auka landbúnaðarframleiðslu, held ég, um hátt í 40% í kringum 2030. Það er bara heilmikið og að sama skapi erum við að horfa upp á að bændur eiga í erfiðleikum með rekstur og nýliðun í landbúnaði er allt of lítil.

Ég vil geta þess að ég hef nú lagt fram og mælt fyrir tveimur frumvörpum hér í þinginu sem lúta að því að greiða fyrir nýliðun í landbúnaði og vona að þau mál fái framgang vegna þess að án eðlilegrar nýliðunar í landbúnaði mun landbúnaður á Íslandi fjara út. Þess vegna er afar mikilvægt að við mætum þessari stöðu sem landbúnaðurinn er í núna. Það er náttúrlega ákaflega dapurt þegar ungir bændur segja í viðtölum að þeir ætli að hætta vegna þess að þeir ráði ekki við þetta. Vaxtastigið er orðið með þeim hætti að þeir ná ekki að greiða af sínum lánum og rekstrarkostnaðurinn hefur hækkað verulega eins og við þekkjum öll. Það er náttúrlega líka sökum utanaðkomandi aðstæðna. Áburðarverð, eins og við þekkjum, hefur hækkað gríðarlega vegna stríðsins í Úkraínu og fleira. Við þurfum bara, eins og ég segi, að sammælast um að mæta þessum erfiðleikum. Ég ætla að vona að þess sjái merki í fjárlagafrumvarpinu og auk þess að þessi ágæti starfshópur sem hæstv. ráðherra hefur skipað komi með góðar og mikilvægar tillögur fyrir sérstaklega unga fólkið í landbúnaðinum sem er náttúrlega framtíð íslensks landbúnaðar, við megum ekki gleyma því.

Að þessu sögðu, frú forseti, styð ég þetta frumvarp og vona að það fái góða umfjöllun í nefndinni. Þetta er eitt skref af mörgum sem þarf að stíga til að styrkja stoðir íslenskrar matvælaframleiðslu.