154. löggjafarþing — 34. fundur,  21. nóv. 2023.

búvörulög.

505. mál
[16:01]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinni ræðu sína og gott að heyra að hann óttist ekki um litlar afurðastöðvar, að þær geti lifað af. Nú er ég ekki sérfræðingur í búvörusamningunum eða búvörulögunum en mér skilst það, ef ég man rétt, að það sé skylda á mjólkursamlögum að afhenda vinnslustöðvum mjólkurafurðir sínar á sama verði til fullvinnslu, þá líka litlum framleiðendum á mjólkurvörum. Ég hef alltaf skilið það þannig varðandi mjólkurframleiðslu að þessi litlu fyrirtæki sem eru að selja vörur eins og gríska jógúrt, heitir Bio-eitthvað, og fleiri fyrirtæki sem eru að selja vörur sínar í búðum, fái mjólkina frá stóru mjólkurbúunum. Nú veit ég ekki til þess, t.d. varðandi lambakjötið, að það sé skylda á afurðastöðvunum að selja til minni kjötvinnslna til fullvinnslu. Það væri gaman að heyra það ef hann gæti upplýst þingheim um það, það væri mjög fróðlegt. Ég er líka að horfa á það varðandi slátrunina að lítil fyrirtæki geti komist inn á þann markað og þá með fullvinnslu alveg áfram. Ég vona að það verði ekki bara eftir ein, tvær eða þrjár afurðastöðvar og það eigi enginn raunverulega séns á að fara slátra, að frumframleiðendur sjái hag sínum best borgið að vera með þessa samninga og samkeppnin sé mjög lítil. Það er mjög mikilvægt að mörkin á milli samkeppnisréttar og búvörulaga séu skýr eins og er meginefni frumvarpsins og að samkeppni sé ekki útilokuð, eins og segir í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins, sem verður 5. gr. laganna. Við erum bæði að horfa á þetta út frá afurðastöðvunum, hvort frumframleiðendur sjái hag í því að afhenda kjöt til lítilla afurðastöðva. Það er það sem mér finnst ekki liggja alveg fyrir, og líka það hvort kjötvinnslurnar geti ekki örugglega fengið það á sama verði eins og í mjólkinni. Það væri gaman að heyra álit hv. þingmanns á þessu.