136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar. Það sem er kannski sérstakt við að ræða þetta er tímasetningin, eins og við vitum öll erum við núna í miðri fjármálakreppu og með heim í uppnámi. Þetta eru ekki mín orð, virðulegi forseti, þetta er bara það sem ég var að prenta út rétt áðan af vef BBC. Stærsti hlutinn af því sem er í fréttum í dag snýr að þeirri stöðu sem er uppi í alþjóðasamfélaginu. Fyrirsögnin í greinasafninu í útskýringum fyrir fólk er þessi: Fjármálakreppan, heimur í uppnámi. Þar er farið yfir það frá landi til lands hvaða áhrif þetta hefur. Ef einhver hér inni eða sá sem ætlar að láta taka sig alvarlega í umræðunni talar hér eins og þetta sé eingöngu mál Íslands hvet ég viðkomandi (Gripið fram í.) til að líta í tölvuna, skoða vefsvæðið bbc.com og svo aðeins að renna í gengum þetta. Síðan er að vísu hægt að fara í gegnum flestar þær vefsíður sem fjalla um fréttir og aðeins að opna augun fyrir því sem er nákvæmlega að gerast í heiminum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lesa þetta allt saman upp, við höfum ekki daginn til þess og ekki vikuna, en ég ætla aðeins að lesa hér upp. Á vefsvæðinu koma fram þau lönd sem þetta hefur haft bein áhrif á. Þá er ég að vísa til, eða réttara sagt þessi fréttavefur, þeirra landa þar sem bein afskipti hafa verið höfð út af því ástandi sem er. Þetta eru Argentína, Brasilía, Kanada, Mexíkó, Bandaríkin, Ástralía, Kína, Hong Kong, Japan, Malasía, Nýja-Sjáland, Singapúr og Suður-Kórea. Í Evrópu eru það Austurríki, Hvíta-Rússland, Belgía, Danmörk, Eistland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð, Sviss, — virðulegi forseti, Sviss — og Úkraína. Síðan eru tekin fleiri og fjarlægari lönd sem eru tilgreind sérstaklega þar sem farið er yfir þann vanda sem maður horfir á í heiminum í dag. (SJS: … kosningar …)

Virðulegi forseti. Ég heyri að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þótti óþægilegt að heyra að þetta væri ekki bara bundið við Ísland. Hann veit sem er — og allir sem hlustuðu á ræðu hans hér áðan og eru búnir að hlusta á fleiri, fleiri ræður frá hv. þingmanni — að það var ekki mikil sannfæring þegar hann flutti þessa vantrauststillögu.

Hví skyldi það nú vera? Það er einfaldlega vegna þess að það hvarflar ekki að neinum manni við aðstæður sem þessar að það sé rétt að fara í kosningar, það hvarflar ekki að neinum manni, (Gripið fram í: Jú.) engum ábyrgum aðila (Gripið fram í: Þjóðinni.) dettur það í hug. Hvenær hefur þjóð sem er í erfiðri stöðu, sem er í kreppu, hvort sem hún stafar af fjármálalegum hlutum, náttúruhamförum, stríðsátökum eða öðru, dottið í hug að fara í kosningar? (Gripið fram í: Samfylkingarráðherrum.) Nákvæmlega ekki neinum. Menn finna þess engin dæmi í heimssögunni (Gripið fram í.) þegar slík staða er uppi að menn hafi hlaupið til þess, því fer algjörlega víðs fjarri.

Þegar við skoðum rökstuðning hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar — hvað sagði hann? Hvað mælti með því að við færum í kosningar? (SJS: Allt.) (Gripið fram í: Allt.) Virðulegi forseti. Hann nefndi skoðanakannanir og benti réttilega á að fylgi ríkisstjórnarinnar væri ekki mikið nú um stundir. Skoðum þá röksemd. Þessi hv. þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, var einu sinni í ríkisstjórn. Það eru að vísu bara elstu menn sem muna það og þeir sem hafa haft áhuga á þessu mjög lengi og er ég í þeim hópi. Ég man að þessi hv. þingmaður var í ríkisstjórn frá 1988 til 1991. Virðulegi forseti. Hvernig voru skoðanakannanir þá hjá þeirri ágætu ríkisstjórn? (Gripið fram í.) Var það vinsæl ríkisstjórn? Aldeilis ekki, hún var algjörlega laus við vinsældir. Hvarflaði þá að hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að boða til kosninga, sem þá einmitt var ráðherra? Að sjálfsögðu ekki. Ég þykist vita hverjar röksemdirnar voru, að menn hefðu verk að vinna og það væri sjálfsagt að klára kjörtímabilið og ganga síðan til kosninga sem allir þurfa að gera sem eru í stjórnmálum. Við þurfum allir að mæta kjósendum, það er nákvæmlega það sem við gerum, út á það gengur lýðræðið.

En að halda því fram, virðulegi forseti, að það sé eitthvað sérstaklega lýðræðislegt eða eðlilegt að fara í kosningar í hvert skipti sem viðkomandi valdhafar eða ríkisstjórn mælist lág í skoðanakönnun hefur bara ekkert með lýðræðið að gera, (Gripið fram í: Ónýt …) nákvæmlega ekki neitt.

Það er ástæða fyrir því að menn eru með kjörtímabil í fjögur ár. (Gripið fram í.) Menn telja skynsamlegt að þeir sem eru kosnir hafi tíma til þess að vinna verkin, oft þarf að taka á mjög erfiðum hlutum og þeir þurfa líka að skila sér. Ef við værum í kosningum á ársfresti, segjum það, væri ekki vel komið fyrir íslenskri þjóð. Það hvarflar ekki að einu einasta landi eða neinum þeim sem er að tala um lýðræði að hafa kosningar eins ört og menn leggja hér upp með. Það er algjörlega ljóst, virðulegi forseti, að við munum fara í kosningar og við munum ekki kvíða því, það liggur alveg fyrir. Og það liggur alveg fyrir að við þurfum að mæta, og gerum það með glöðu geði, okkar fólki, kjósendum, og leggjum okkar verk í þeirra dóm, alveg hreint og klárt. (Gripið fram í: 2011?)

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að græðgi vinstri grænna sé svona gríðarlega mikil núna og þá langi svo að innleysa einhvern skoðanakannanahagnað hvet ég, virðulegi forseti, þá aðila til að hugsa hlutina aðeins lengra, (Gripið fram í: 2011.) því að orðum fylgir ábyrgð. Ef menn leggja hér upp með það að í hvert skipti sem ríkisstjórn fær ekki góða niðurstöðu úr skoðanakönnunum eigi að hlaupa til og fara í kosningar eru menn að (Gripið fram í.) leggja upp með ansi róttækar breytingar. (Gripið fram í: Hver er ráðherra …?)

Ég held að það sé alveg ljóst af þessum umræðum hér að allir sem töluðu, líka stjórnarandstæðingar, vita sem er að ef það er einhver tími til að fara ekki í kosningar er það nákvæmlega núna. Við erum að fara í mjög erfiða vinnu, fjárlagavinnu, og það skiptir máli, virðulegi forseti, að menn vinni vel. Ég held að allir hafi hér sömu markmið, ég held að allir hér inni hafi þau markmið að við getum haldið vel utan um þá velferðarþjónustu sem er til staðar. Það liggur alveg fyrir að okkur er þrengri stakkur skorinn núna en oft áður. Það liggur alveg fyrir að það er hagur okkar og vilji að sjá til þess að vernda heimilin. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir að það er vilji okkar að sjá til þess að hjól atvinnulífsins fari aftur að snúast, sem er grunnurinn að þessu öllu saman. Núna, virðulegi forseti, reynir á okkur öll í þeirri vinnu, svo einfalt er það mál.

Þess vegna eigum við að snúa bökum saman og við eigum að vinna saman úr þessu verkefni sem er til staðar því að þrátt fyrir allt er framtíð íslenskrar þjóðar björt. Hér eru fjölmörg tækifæri og það vitum við öll. Ég lýsi mig fúsan til þess að taka af áhuga þátt í þeirri vinnu og ég efast ekkert um að ef þingheimur og þingmenn bera gæfu til að vinna saman að þessu verkefni munum við ná góðum árangri.

Virðulegi forseti. Það skiptir líka máli núna að vera ekki að sá efasemdarfræjum, reyna ekki að búa til aukinn óróa í þjóðfélaginu, og þar hafa allir hlutverk. Ég harma það að hv. þm. Jón Bjarnason skuli klifa á því, gegn betri vitund, að það sé búið að taka ákvörðun um 10% flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Virðulegur þingmaður veit að þetta eru hrein og klár ósannindi. Ég get útskýrt það einu sinni enn að það liggur alveg fyrir að það verður ekki farið í flatan niðurskurð í heilbrigðisráðuneytinu. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er að vísa í bréf sem var sent út þar sem beðið var um tillögur um sparnaðaraðgerðir. Þar kemur hvergi fram að búið sé að taka ákvörðun um 1% niðurskurð, 2%, 10% eða neitt slíkt. Þetta veit hv. þingmaður, enda hefur þetta margoft komið fram hjá þeim sem hér stendur, sömuleiðis fjármálaráðherra, en hv. þm. Jón Bjarnason ákveður samt sem áður að klifa á sömu ósannindunum aftur og aftur. Það er bara ekki gott og það er ekki til þess fallið að hjálpa til við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held að ef menn hugsa þetta alla leið sjái þeir hvaða aðstæður eru uppi. Við sáum um helgina hluti sem við höfum ekki séð hjá íslenskri þjóð áður, í það minnsta ekki svo áratugum skiptir. Við vitum sem er að það eru erfiðir tímar hjá mörgum í þjóðfélaginu, það er ákveðin óvissa uppi og það er krafa, eðlileg krafa, um að málin verði skýrð. Það er eðlileg krafa um að þingið hafi forgöngu um að málin verði skoðuð ofan í kjölinn, þau mál sem snúa að fjármálaumhverfinu og því sem gerðist þar. Það er nokkuð sem við munum gera og ég mundi ætla að góð samstaða ætti að vera um það. Ég hvet til þess að þau sem eru að vinna þá vinnu vinni hana eins hratt og mögulegt er þannig að menn muni sjá niðurstöðu í þeim málum.

Virðulegi forseti. Við sem erum kosin á þing eða í ábyrgðarstöður erum ekki kosin bara til þess að vera þegar góðæri er og vel gengur. Okkur ber líka að taka á hlutum þegar herðir að. Það er nákvæmlega sú staða sem er uppi núna. Allir hér inni vita að það er ekki skynsamlegt við aðstæður sem þessar, ekki skynsamlegt þegar við erum að fara í erfiða fjárlagavinnu, ekki skynsamlegt af því að við erum að vinna okkur út úr þeim vanda sem er til staðar, að fara í kosningar. Allir sem hlustuðu á ræður stjórnarandstæðinga hér áttuðu sig á því að það var afskaplega lítil sannfæring á bak við talið um þessa tillögu.

Virðulegi forseti. Ég held að öllum sé ljóst, svo sannarlega þeim sem fluttu þessa tillögu, að hún var ekki gerð til þess að samþykkja hana. Því miður, virðulegi forseti, sáu menn ástæðu til þess og duttu í þá freistni að taka heilan dag við þessar erfiðu aðstæður til að fara í einhvers konar umræður sem hafa verið líkari eldhúsdagsumræðum en nokkurn tíma umræðum um jafnalvarlegt mál og jafnalvarlega tillögu og raun ber vitni. Virðulegi forseti. Það er ekki gott. Það verður hins vegar ekki aftur tekið og það er mikilvægt að við ljúkum þessu máli og förum síðan að vinna fyrir þjóðina, það eru mörg verkefni fram undan og ég vonast til þess að það verði sem best samstaða meðal þingmanna um að vinna að þeim verkefnum sem við svo sannarlega erum sammála um og eru þjóðinni til heilla. (Gripið fram í.)