138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir sitt svar. Af því að fyrri spurningin varðaði kannski liði 1 og 2 í hinum svokölluðu Brussel-viðmiðum, langar mig aðeins að impra á lið 3. Þar kemur fram að stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra frá hv. þingmanni, af því að hún er eins og ég mikill áhugamaður um Evrópusambandið og við höfum fylgst mjög vel með því sem er að gerast þar: Telur þingmaðurinn að það hafi verið staðið við þetta ákvæði í Brussel-viðmiðunum eins og samningarnir hafa verið unnir hingað til bæði í sumar og núna, og hvort þá flokkist undir þetta sú ályktun eða áskorun frá Evrópuþinginu að þar með hafi stofnanir Evrópusambandsins verið að taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær?