138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar góða ræðu og ég er sammála henni um eitt og annað í þeirri ræðu. Ég er sérstaklega sammála því sem fram kom í orðaskiptum þingmannsins við hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur um samstöðuna, að það var að nást upp gott „moment“, ef ég má sletta, í sumar og sorglegt að það tækifæri skyldi ekki hafa verið nýtt í framhaldinu.

Þingmaðurinn nefndi í ræðu sinni að hún teldi að sótt hefði verið um aðild að Evrópusambandinu hvort sem bankahrunið hefði átt sér stað eða ekki. Ég get svo sem verið sammála því að einhverju marki að þetta mál var byrjað og er ótengt bankahruninu. En þá langar mig til að spyrja — vegna þess að hún hefur verið í hópi þeirra þingmanna sem hafa viljað láta reyna á samning og greiddi atkvæði með því, ef mig misminnir ekki, í sumar — hvað telur hv. þingmaður um tengsl Icesave og Evrópusambandsins? Það er mikið rætt um það og deilt er um ályktun eða ekki ályktun frá Evrópuþinginu sem allir virðast túlka sem nokkurs konar hótun til okkar, nema hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem kemur hér upp mjög ötullega og andmælir því. Ég persónulega, burt séð frá þessari ályktun, hef orðið vör við þetta í samskiptum mínum við aðra þingmenn. Breskir og hollenskir þingmenn hafa sagt það við mig hreint út að þeir væru algjörlega tilbúnir að sjá okkur í Evrópusambandinu en við yrðum auðvitað að greiða þessar skuldbindingar fyrst og ganga frá þessu öllu saman.

Ég vil því spyrja hv. þingmann sem er mikill þátttakandi í alþjóðasamstarfi (Forseti hringir.) og Norðurlandasamstarfinu, deilir hún þeirri skoðun minni að þar séu tengsl og hefur hún orðið vör við það í vinnu sinni?