138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Frægur rithöfundur sagði eitt sinn að maður sem eyðir penníi minna en hann aflar á mánuði er hamingjusamur en sá sem eyðir penníi meira en hann aflar á mánuði er óhamingjusamur. Íslenska þjóðin breytti um hegðun í október sl. Það varð alger breyting á hegðun þjóðarinnar og afskaplega ánægjulegt þótt tilefnið hafi verið sorglegt. Ég hugsa að Íslendingar sem voru einar mestu eyðsluklær í Evrópu hafi á einni nóttu breyst í að vera kannski ekki alveg allra sparsömustu menn í Evrópu en með þeim sparsamari. Innlendur sparnaður hefur vaxið gífurlega síðan í haust, ég hef ekki skoðað það nýverið en ég held að það sé um hálf milljón á mann. Þ.e. fjögurra manna fjölskylda er búin að spara um tvær milljónir síðan í haust að meðaltali. Þetta er ákveðin kerfisbreyting eða hugarfarsbreyting hjá Íslendingum og ég vona að hún haldi áfram.

Ef ríkisstjórnin heldur sig við stefnu sína að skattleggja fyrirtæki og atvinnulífið í þeim mæli sem hún leggur til getum við hins vegar lent í þeim vítahring að það þurfi að skattleggja meira. Þá flytja margir til útlanda og það er stærsta hættan. Það er ekki ímynduð hætta því útflutningur á fólki er þegar byrjaður, frú forseti, sem er stórhættulegt því fólkið er aðalauðlindin okkar. Ef þetta gerist verða alltaf færri og færri sem geta borgað skatta og það þarf alltaf að leggja meira og meira á því aldraðir, fatlaðir og öryrkjar geta ekki flutt til útlanda. Þeir verða áfram sem kostnaður á ríkinu en tekjuhóparnir sem gefa ríkissjóði tekjur fara til útlanda. Þetta er stórhættulegt, frú forseti, og þetta þurfum við að hugleiða vel. Eigum við að skattleggja svona mikið?