140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[11:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frumvarpið var samið í fjármálaráðuneytinu að höfðu samráði við Landssamtök lífeyrissjóða, Fjármálaeftirlitið og velferðarráðuneytið.

Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting er lýtur að því að lífeyrissjóðir móti eftirlitskerfi sem geri sjóðunum kleift að meta með sem skilvirkustum hætti þá áhættu sem fólgin er í starfsemi sjóðanna. Í ljósi hlutverks lífeyrissjóða og lögbundinna krafna þykir eðlilegt að fela stjórnum lífeyrissjóða það hlutverk að móta eftirlitskerfi sem geri sjóðnum kleift að meta með sem skilvirkustum hætti þá áhættu sem fólgin er í starfsemi hans, hvernig fylgst sé með áhættu og hvernig henni er stýrt eftir því sem við verður komið, en í 3. mgr. 29. gr. er að öðru leyti kveðið á um þau verkefni sem stjórnir lífeyrissjóða hafa með höndum. Þá liggur fyrir að Fjármálaeftirlitið hefur unnið að leiðbeinandi tilmælum um áhættustýringu hjá lífeyrissjóðum og meðal annars leitað eftir sjónarmiðum Landssamtaka lífeyrissjóða við þá vinnu. Tilmælin hafa verið samþykkt af stjórn Fjármálaeftirlitsins og nefnast leiðbeinandi tilmæli um áhættustýringu samtryggingardeilda lífeyrissjóða, nr. 4/2011.

Í 2. gr. eru lagðar til breytingar er varða vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða og er þar um framlengingu að ræða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum. Með því er lagt til að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði 15% áfram í stað 10%, eða út árið 2011, en í ákvæðinu kemur fram að mörkin geti numið allt að 15% sem er frávik frá almennu reglunni í 1. málslið 2. mgr. 39. gr. laganna. Þá er lagt til að rýmkuð vikmörk verði lækkuð í þrepum á næstu þremur árum uns 10% mörkunum verði náð árið 2014. Vísast hér meðal annars til röksemda sem fram komu í áliti efnahags- og skattanefndar þegar umrætt bráðabirgðaákvæði var sett, sbr. lög nr. 171/2008, 219. mál, þskj. 459 á 136. löggjafarþingi árið 2008. Þar sagði meðal annars að fram hefði komið að talsverðrar óvissu gætti um eignir lífeyrissjóðanna og að neikvæð staða margra væri um eða yfir 10%. Nefndin ræddi það atriði þá ítarlega og einkum það sjónarmið að hér væri verið að fresta því að taka á vanda sjóðanna á kostnað yngri sjóðfélaga. Betra væri að taka strax á vandanum og hafa þessi mörk óbreytt. Á móti kæmi að hér væri um að ræða heimildarákvæði og að stjórn sjóðs gæti tekið sjálfstæða ákvörðun um skerðingu ef staða sjóðsins væri nálægt þessum mörkum. Þá var bent á að staða á eignamörkuðum væri svo óljós að ekki lægi enn fyrir hvert áfallið yrði. Það kynni að skýrast á árinu 2009. Á þessi sjónarmið féllst nefndin. Með hliðsjón af þeim rökum nefndarinnar að varast bæri að fresta því að taka á vanda sjóðanna er í frumvarpinu einmitt lagt til að rýmkuð vikmörk verði lækkuð í þrepum á næstu þremur árum uns 10% mörkunum verði náð árið 2014. Hér er um að ræða heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér, en líkt og síðustu ár er útlit fyrir að einhverjir sjóðir séu með neikvæða stöðu yfir 10%.

Í ákvæði a-liðar 3. gr. er lagt til í bráðabirgðaákvæði, sem öðlast gildi hinn 1. janúar 2012 og gildir til 1. júlí 2012, að kveðið verði á um greiðsluskyldu til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs á því tímabili. Ákvæðið er framlenging á ákvæði til bráðabirgða X í lögunum sem fellur úr gildi samkvæmt efni sínu 31. desember 2011. Hér er litið til þess að í ákvæði til bráðabirgða X, sem samþykkt var vorið 2011, var lagt fyrir ráðherra velferðarmála og ráðherra lífeyrismála að skipa samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins, stjórnvalda og Landssamtaka lífeyrissjóða til að koma fram með nánari tillögur um skipulag og samhæfingu starfsendurhæfingarmála fyrir 1. nóvember 2011. Samráðsnefndin var skipuð í júní 2011 og hefur fundað reglulega. Hún náði þó ekki að ljúka störfum fyrir 1. nóvember 2011 og því er lagt til að skipunartími hennar verði framlengdur til 1. febrúar 2012.

Í ljósi þess að ekki náðist að ganga frá tillögum nefndarinnar innan þess tímaramma sem starfi nefndarinnar var settur er lagt til að skylda launagreiðanda til að standa skil á iðgjaldi til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald, sbr. 2. mgr. 7. gr., til viðkomandi lífeyrissjóðs verði framlengd til 1. júlí 2012. Þá er gert ráð fyrir að greiðsluskylda lífeyrissjóðanna verði virk þegar lagarammi hefur verið settur um starfsendurhæfingarsjóði, greiðslur til þeirra og rétt til starfsendurhæfingar, eigi síðar en hinn 1. júlí 2012.

Í ákvæði b-liðar 3. gr. eru lagðar til breytingar er varða hæfi stjórnarmanna í lífeyrissjóðum til setu í stjórn annars lífeyrissjóðs og við það miðað að stjórnarmönnum verði veittur ákveðinn aðlögunartími fram til 1. júlí 2012 til þess að segja sig úr stjórn sjóðs ef þeir hafa átt sæti í fleiri en einni.

Með lögum nr. 122/2011 var samþykkt að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum mættu hvorki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann né vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 122/2011 var gert ráð fyrir því að undanþága gilti frá meginreglu 2. mgr. 31. gr., sem kveður á um framangreint, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. væri stjórnarmanni í lífeyrissjóði heimilt að sitja í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Var þetta lagt til þar sem hagur gæti orðið að slíku, t.d. þegar um sambærileg og flókin réttindakerfi væri að ræða hjá lífeyrissjóðum. Slíkt gæti átt við um sjóði sem lytu sameiginlegum rekstri, eins og á við um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, LSR, og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, LH, eða með hliðsjón af sérstöðu annars eða beggja sjóðanna. Gert var ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið gæti sett leiðbeiningarreglur eða viðmið um slíka undanþágu. Í meðförum efnahags- og skattanefndar vorið 2011 var undanþágan felld brott en frumvarpið varð þó ekki að lögum fyrr en á haustþingi í september 2011. Þá láðist að taka afstöðu til aðlögunartíma og stöðu þeirra sjóða þar sem jafnvel meiri hluti stjórnar- og varamanna yrði vanhæfur í kjölfar breytinganna. Þar sem langt er í næstu aðalfundi, en þeir eru flestir haldnir samkvæmt lögum eða samþykktum í apríl- og maímánuði, eða fyrir 30. júní ár hvert, þykir rétt að leggja til að unnt sé að uppfylla skilyrði nýrra laga í síðasta lagi á næstu aðalfundum vorið 2012.

Í ákvæði c-liðar 3. gr. er lagt til að við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem útfærð er fjármögnun lífeyrissjóða í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu á árunum 2011 og 2012.

Forsaga málsins er sú að í lok árs 2010 var samþykkt bráðabirgðaákvæði, þ.e. ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem var hluti stjórnvalda í víðtækum aðgerðum vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þessar greiðslur eru ígildi viðbótarvaxtabóta sem greiddar skyldu tvisvar á ári, 1. maí og 1. ágúst, á þessu ári og á árinu 2012. Greiðslur fyrir árið 2011 hafa að mestu þegar verið inntar af hendi og munu væntanlega verða nálægt 6,4 milljörðum kr. á þessu ári, en reiknað hafði verið með að þessar sérstöku vaxtaniðurgreiðslur yrðu kringum 6 milljarðar.

Í því samkomulagi sem ríkisstjórnin gerði við hagsmunaaðila í tengslum við þessar aðgerðir segir að aðilar muni í samstarfi leita leiða til að þeir síðarnefndu, þ.e. fjármálafyrirtæki, eða viðskiptabankarnir, og lífeyrissjóðir, fjármagni þessi útgjöld. Vorið 2011 lágu fyrir tillögur þess efnis að heildargreiðslur þessara aðila í formi tímabundinnar skattlagningar yrðu 3,5 milljarðar á þessu ári sem skiptist jafnt á milli þeirra, þ.e. 1.750 millj. kr. á viðskiptabanka og 1.750 millj. kr. á lífeyrissjóði. Við meðferð málsins hjá efnahags- og skattanefnd á vorþingi 2011 kom fram rík andstaða hjá lífeyrissjóðunum, bæði varðandi skiptinguna og formið, um leið og óskað var nánara samráðs við stjórnvöld um hvernig greiðslum lífeyrissjóðanna skyldi háttað. Niðurstaðan varð því sú að 2.100 millj. kr. skyldu fjármagnaðar af viðskiptabönkunum og var það samþykkt í formi viðbótarbankaskatts, samanber lög nr. 155/2010, og er sú skattlagning þegar komin fram. Tillagan um fjármögnun lífeyrissjóða, sem samkvæmt samkomulagi skyldu fjármagna 1.400 millj. kr., var hins vegar felld brott vorið 2011 af hálfu efnahags- og skattanefndar, en tillagan var sú að ákvæði um tímabundinn skatt á lífeyrissjóði yrði að finna í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í áliti nefndarinnar með breytingunni var stjórnvöldum og Landssamtökum lífeyrissjóða hins vegar falið að eiga nánara samstarf á sumarmánuðum um útfærslu og greiðslur lífeyrissjóðanna á umræddri fjárhæð. Í sumar og þó einkum nú á haustmánuðum hafa fulltrúar lífeyrissjóðanna og fjármálaráðuneytisins fundað og farið yfir það hvort hægt væri að finna einhverjar þær lausnir sem ekki krefðust lagabreytingar og beinnar skattheimtu af lífeyrissjóðunum. Þrátt fyrir góðan vilja samningsaðila reyndist þeim ekki kleift að ná samkomulagi um slíkar lausnir. Fyrir nokkru lá hins vegar fyrir að ekki yrði unnt að fara þá leið að fjármagna hluta lífeyrissjóðanna með öðrum hætti og því er hér lagt til að sú leið verði farin sem byggt er á í þessu frumvarpi til að fjármagna áðurnefndar 1.400 millj. kr. af vaxtaniðurgreiðslunni á árinu 2011 og samsvarandi fjárhæð á árinu 2012.

Í ákvæði c-liðar 3. gr. frumvarpsins er því að finna tillögu að gjaldstofni, gjaldhlutfalli og greiðslufyrirkomulagi á fjármögnun lífeyrissjóða á hlut þeirra í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu. Lagt er til að gjaldstofn verði hrein eign þeirra til samtryggingar í lok árs 2011 og 2012 og gjaldhlutfallið 0,0814%. Jafnhliða er lagt til að álagning gjaldsins fari fram með álagningu opinberra gjalda á lögaðila fyrir þessi ár en að sjóðirnir greiði hins vegar fyrir fram upp í þá álagningu á árunum 2011 og 2012 á grundvelli hreinnar eignar í árslok 2010 og 2011. Í lok árs 2010 nam hrein eign samtryggingardeilda lífeyrissjóða samtals 1.718.855 millj. kr. samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2010. Gjaldhlutfallið, 0,0814%, byggist á þeirri fjárhæð og fyrirhugaðri fjármögnun upp á 1.400 millj. kr. á þessu ári.

Rétt er að taka fram að hér er um afar mikilvægar aðgerðir að ræða sem nú eru langt komnar af hálfu banka, lífeyrissjóða, Íbúðalánasjóðs og stjórnvalda, þetta er víðtækt samkomulag um umfangsmiklar aðgerðir til að létta á skuldavanda tugþúsunda heimila í landinu og er afar mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum til þeirra aðgerða. Allir njóta góðs af bættri stöðu lántakenda að þessu leyti, jafnt lífeyrissjóðir sem aðrir sem lánað hafa þessum aðilum fé. Því er í reynd mjög auðvelt að réttlæta þátttöku lífeyrissjóðanna í þessu að því leytinu til að greiðslugeta og burðir þeirra sem þarna fá úrlausn sinna skuldamála verða betri og eignasöfn viðkomandi aðila þar með betri. Þannig gagnast það að sjálfsögðu lífeyrissjóðum að bankar og/eða Íbúðalánasjóður sem eiga kannski hluta af skuldum viðkomandi aðila fyrir sitt leyti endurskipuleggi þær og öfugt, að þátttaka hvers um sig styður aðgerðir hinna og því er afar mikilvægt að það takist að viðhalda þessu samkomulagi og leiða það til lykta með farsælum hætti.

Augljóst er að erfitt væri að ætlast til þess að aðrir aðilar legðu sitt af mörkum ef ekki yrði um þátttöku lífeyrissjóðanna að þeirra hluta að ræða. Rétt er að taka fram að til að greiða götu þess að samkomulag næðist um þetta varð niðurstaðan á vormánuðum að ríkið tæki sjálft á sig stóran hluta greiðslunnar, þ.e. 2,5 milljarða kr., en bankar og lífeyrissjóðir skiptu hinu á milli sín. Niðurstaðan varð jafnframt sú að leggja þar þyngri hlutann á herðar bönkunum og minna á lífeyrissjóðina.

Ég legg áherslu á að hér er um viðamiklar aðgerðir að ræða sem mikilvægt er að samkomulag takist um og að það verði leitt til lykta. Þannig er það hugsað.

Rétt er að taka skýrt fram og taka af allan vafa í þeim efnum að ekki stendur til að innleiða með neinum hætti framtíðarskattlagningu lífeyrissjóða. Hér er eingöngu verið að finna lögformlegan grundvöll fyrir því að lífeyrissjóðirnir leggi á þessum tveimur árum sitt af mörkum í þessar aðgerðir í þágu þess að bæta stöðu lántakenda, af því að aðrar leiðir hafa ekki reynst færar, en vaxtaniðurgreiðslan er hinn stóri almenni þáttur þessara aðgerða sem gagnast að uppistöðu til öllum þeim sem á hvílir skuldabyrði vegna íbúðarhúsnæðis. Aðrir þættir aðgerðanna eru meira sértækir og beinast að þeim sem eru í mestum vanda, eins og 110%-leiðin svonefnda, sértæk skuldaaðlögun og annað því um líkt.

En vaxtaniðurgreiðslan er stór almenn aðgerð til að takast á við þetta ástand, upp á 6 milljarða kr. hvort ár eða liðlega það, eins og útkoman varð á þessu ári, og hefur að sjálfsögðu mjög mikil áhrif á greiðslubyrði þessa hóps. Með þeim miklu fjármunum sem þar með er varið til vaxtabóta og vaxtaniðurgreiðslna upp á 17–18 milljarða kr. hvort ár lætur nærri að upp undir þriðjungur af heildarvaxtakostnaði heimilanna í landinu vegna íbúðarhúsnæðis sé niðurgreiddur í gegnum vaxtabóta- og vaxtaniðurgreiðslukerfið.

Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi að undanskildum a-lið 3. gr. um greiðslur til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, en þar er gert ráð fyrir framlengingu á bráðabirgðaákvæði þar til sérlög verða sett um starfsendurhæfingarsjóði. Því er lagt til að ákvæðið öðlist gildi 1. janúar 2012 er ákvæði til bráðabirgða X fellur úr gildi og að það gildi til 1. júlí 2012 með vísan til þess sem áður er rakið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu. Samkomulag er milli fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar um að málið, þótt það varði vissulega lífeyrissjóði sem séu á verksviði fjárlaganefndar, gangi engu að síður til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem í því eru nefndir tekjuöflunar- og skattaþættir sem ég hef farið yfir í framsögu minni.