140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

368. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Seinna í dag munum við ræða um aga í ríkisfjármálum. Þar á meðal er að fara að lögum. Hæstv. ráðherra sagði að ráðuneytið og stjórn LSR hefði litið þannig á að almenna reglan um að víkka megi bilið á milli skuldbindinga og eigna upp í 15% gilti fyrir LSR. Um LSR gilda hins vegar sérlög. Ég er ekki lögfræðingur en mér er tjáð, og hefur verið tjáð aftur og aftur í umræðunni, að sérlög gangi framar almennum lögum þannig að sérlögin um LSR hljóta að gilda. Þetta eru umtalsverðar upphæðir, frú forseti, sem hefðu þá komið inn í fjárlagafrumvarpið sem við samþykktum í gær. Ég veit ekki hversu mikið. Við mjög lauslega skoðun sýnist mér vanta um 4 milljarða fyrir næsta ár en líka aftur í tímann, fyrir tvö eða þrjú ár, vantar um 4 milljarða fyrir hvort eða hvert ár. Það væri þá framlag ríkisins og sveitarfélaganna til þessa sjóðs. Við erum að tala um umtalsverðar fjárhæðir sem vantar þá inn í fjárlagafrumvarpið.

Ég hefði viljað sjá allar þessar álögur á lífeyrissjóðina koma beint úr ríkissjóði vegna þess að þá eru þó allir landsmenn skattaðir en ekki bara sjóðfélagar almennu sjóðanna sem búa við það að lífeyrisréttindi þeirra eru ekki tryggð.