140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

agi í ríkisfjármálum.

[16:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Því miður eru eftirfarandi atriði einkennandi fyrir íslenska fjárlagagerð til langs tíma: Agaleysi, óljós hlutverk, lítil yfirsýn og eftirlitsleysi. Allt eru það atriði sem standa upp úr í því efni, því miður. Það á ekki bara við daginn í dag heldur hefur það átt við í langan tíma. Upplýsingar hafa borist seint og illa, samanber nýleg dæmi við fjárlagagerð nú í haust. Misbrestur hefur orðið á því að lokafjárlög hafi verið lögð fram með ríkisreikningi. Ríkisreikningur hefur verið lagður fram allt of seint og skiptir þar oft mánuðum, jafnvel árum, en Bandaríkjamenn klára ríkisreikning sinn þremur til fjórum mánuðum eftir að fjárlagaárinu lýkur.

Þá hafa upplýsingar um stöðu stofnana fyrstu níu mánuði ársins og áætluð staða í árslok hefur ekki legið fyrir við ákvarðanatöku við afgreiðslu fjárlaga mörg undanfarin ár. Í rauninni eru rammafjárlög hér á landi ekki rammafjárlög og það er breyting sem við þurfum nauðsynlega að koma á. Nýlegt dæmi er frávik frá afkomu frá fjárlögum ársins 2010 til ríkisreiknings fyrir sama ár hefur verið um 24,8% sem er algjörlega óásættanlegt.

Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum tveimur áratugum ítrekað bent á misbresti á framkvæmd fjárlaga en því miður hafa athugasemdir stofnunarinnar litlu skilað. Þá hafa OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gert athugasemdir við fjárlagavinnuna hér. Benti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sérstaklega á fimm gloppur í lögunum sem útskýrðu það agaleysi sem hér er til umræðu. Var nefnt sem dæmi að allt of mikið svigrúm væri til að flytja ónotaðar fjárheimildir á milli ára og einnig að stofnanir mættu fara 4% fram úr fjárheimildum. Samkvæmt athugasemdum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru það of rúmar heimildir, sveigjanleikinn ætti að vera mun minni.

Það þarf svo sem ekki að fara sérstaklega yfir mikilvægi aga í fjármálum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ræddi það í nýlegri ræðu þegar hún fór yfir vanda Evrópusambandsins. Ef við ætlum okkur að hafa hér krónu sem gjaldmiðil, sem ég tel að sé framtíðargjaldmiðillinn okkar, þurfum við að koma á aga í ríkisfjármálum.

Því miður höfum við horft upp á leikrit í þessum efnum. Forstöðumenn stofnana kunna leikinn, þeir sem fara fram úr fjárheimildum en fá engin gul eða rauð spjöld vegna þess að það eru í raun lítil tæki til þess að taka á því. Ráðherrar sem taka ákvörðun um rammafjárlögin koma eins og frelsandi englar með hærri fjárframlög og Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt framsetningu á því að talað sé um frumjöfnuð í staðinn fyrir heildarjöfnuð í áætlun um ríkisfjármál. Ríkisendurskoðun segir í skýrslu sem hún lagði fram fyrir fjárlagagerðina á þessu ári að um væri að ræða millistærð sem gæfi því miður ekki rétta mynd af stöðunni.

Því miður, þrátt fyrir góðan vilja meiri hluta Alþingis, hefur sá vilji verið meira í orði en á borði. Ég ætla samt að taka það fram að ég fagna því að fara eigi í þessa vinnu strax eftir áramót. Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga þar sem stendur til að breyta þessu. Öll fjárlaganefndin sameinaðist um eitt lítið skref. Spurningar mínar til fjármálaráðherra lúta fyrst og fremst að því hvernig (Forseti hringir.) hann sjái fyrir sér vinnuna eftir áramót og hvort hann sé ekki sammála mér um að það þurfi virkilega að taka til í þessum málum.