140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

opinberir háskólar.

378. mál
[18:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að taka örstutt til máls til að taka undir þetta frumvarp. Það hefur verið stefna Sjálfstæðisflokksins að hækka skráningargjöldin en ég man eftir því, frú forseti, að þegar þau voru lögð á á sínum tíma heyrðist hér í mjög mörgum, sérstaklega vinstri mönnum sem voru mikið á móti þessu. Þess vegna finnst mér þetta undarlegt frá þessari ríkisstjórn. Ég hefði skilið frá annarri ríkisstjórn að láta menn borga kostnað skólanna með skráningargjöldum.

Þetta er gífurlega mikil hækkun en eins og hæstv. ráðherra sagði hefur verðbólgan hækkað mikið sem og gengi evrunnar. Menn geta tekið hvaða viðmiðun sem er og sjá er þetta lágt í þeim skilningi. Fyrir námsmenn og sérstaklega fólk sem hefur orðið atvinnulaust geta þó þessar 15 þús. kr. sem er verið að bæta við fyrir námsmenn á hverju ári munað ansi miklu. Margt atvinnulaust fólk hefur leitað í nám til þess bæði að bæta stöðu sína á vinnumarkaði og eins fylla upp í tímann eftir að ríkisstjórnin skapaði svona mikið atvinnuleysi sem er þá dulið með þessari gífurlegu fjölgun nemenda í háskólum. Mér þykir undarlegt ef námsmenn láta sér þetta vel líka.