140. löggjafarþing — 34. fundur,  8. des. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

381. mál
[20:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég biðst afsökunar á þessu. Ég hef af ýmsum ástæðum mætt slaklega á þingflokksfundi og örugglega misst af þeim sem hér um ræðir. Ég hef enga ástæðu til að halda því fram að hér sé verið að lauma einhverju inn eða læðupokast eða leyndarmálast með nokkurn skapaðan hlut í þessu. Ég hef einfaldlega misst af þessari fínu umræðu í þingflokki mínum og hefði betur skoðað frumvarpið. Hins vegar má auðvitað segja að það hefur ekki verið mælt fyrir frumvarpi til upplýsingalaga þó að það liggi hugsanlega frammi — eða hvað, forseti? Ég kannast ekki við að mælt hafi verið fyrir því þannig að þetta er auðvitað nýtt og sérstakt mál.

Ég vil líka segja að það er rétt, úr því að það kemur til umræðu í ræðustólnum, að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir var ekki í sjálfu sér meðmælt þessu ákvæði en það sem ég átti við, hvernig sem það hefur komið út úr mér, var að við stóðum bæði saman að nefndaráliti meiri hlutans og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn flutti við málið á þinginu í þessum löngu og herskáu umræðum sem urðu um málið á septemberþinginu.

Já, það er vissulega gott að taka langan tíma í að skoða málin en spurning mín er samt þessi: Hvað þarf að skoða? Er það ekki þannig að í hinum 36 greinum — sem betur fer eru þær ekki jafnmargar og Lúter festi upp á kirkjudyrnar — komi fram álitamálin sem úr þarf að leysa? Að mínu viti er hægt að taka ákvæðin úr upplýsingalögunum og sníða þau að lögunum um Stjórnarráð Íslands eins og menn vilja. Einfaldast væri að segja í þessum lögum, a.m.k. til bráðabirgða, að á þessum gögnum sé full leynd, hvíli sá trúnaður sem áskilinn er gagnvart öllum aðilum máls, gagnvart öllum þeim sem ég taldi upp áðan og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði í framsöguræðu sinni. Það finnst mér einfaldast. Þá stæðum við fullkomlega við samþykkt Alþingis frá því í haust. Þá hæfist þetta núna og ekki síðar sem var meining Alþingis með málinu, hversu gáfuleg sem hún var. Það getur vel verið að við eigum að taka hana upp en þá er rétt að flytja frumvarp um það, að menn geri það þá hreinlega. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé meiningin hér, a.m.k. ekki allra. Ég tel að það sé til einfaldari leið til að gera hvort tveggja, láta vilja Alþingis frá því í september ganga fram og leysa úr þeim álitaefnum sem hér eru fyrir hendi. Ég hélt í bernsku minni að þau kæmu ekki upp vegna þess að hvað sem líður öðrum nefndarmönnum var ég þeirrar meiningar að þar sem ekki væri um nein undantekningarákvæði að ræða í lagatextanum væri hér átt við fullkominn trúnað, fullkomna leynd, þessi 30 ár hvað sem í skærist.

Nú kemur upp þessi mikla greinargerð gegn því að svo sé og þá er einfaldast, af því að við erum á löggjafarsamkomunni, að girða fyrir það að nokkur álitaefni komi upp í þessu. Það var meiningin með ræðu minni.

Ég þakka hv. flutningsmanni fyrir sókn og vörn í málinu. Þetta er 1. umr., svo koma tvær í viðbót og við sjáum hvað nefndin, væntanlega stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hugsar í þessu. Hún tekur væntanlega tillit til þeirra sjónarmiða sem hér koma fram og ræðir kannski við þá sem voru í allsherjarnefnd á sínum tíma og ekki eru nú í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um það hvernig þetta var hugsað. Það þarf að gerast mjög fljótt því að það er vika til stefnu, ákaflega stuttur tími, hvenær sem þetta ákvæði kom fram í fyrsta sinn á hinu háa Alþingi.