141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar gleymdi hér áðan fjórða áfallinu sem þessi kynslóð sem hann vitnaði til hefur orðið fyrir og það er auðvitað hin tæra vinstri stjórn sem er búin að vera við stjórnvölinn í þessu landi undanfarið. Ástandið er kannski mest henni að kenna.

Við sjáum það núna, eins og fram hefur komið, að atvinnuleysi er að aukast og það dregur orðið úr einkaneyslu. Sá froðuhagvöxtur sem hefur byggst á einkaneyslu dregst saman. Í sjávarútvegi er staðan að verða mjög erfið. Við horfum fram á einhverja erfiðustu tíma í sjávarútvegi á komandi tímum. Staða á mörkuðum er þannig að afurðaverð lækkar. Kaupendur veðja á enn frekari lækkanir á næsta ári og það er ekki útlit fyrir að annað verði upp á teningnum í þeim efnum næstu tvö, þrjú árin. Það eru byrjaðar uppsagnir í sjávarútvegi. Við eigum eftir að sjá meira af þeim. Við sjáum launalækkun hjá sjómönnum með þeim afleiðingum að þau sveitarfélög sem byggt hafa útsvarstekjur sínar á háum tekjum sjómanna verða nú af þeim. Afurðaverð er að lækka.

Á sama tíma er á borðinu veiðiskattur sem er algjörlega óraunhæfur við þessar aðstæður. Rammaáætlun er lögð fram og hún boðar að það verður engin fjárfesting í orkufrekum iðnaði á næstu árum. Það á að stöðva allar orkuframkvæmdir næstu fjögur, fimm árin nema þær sem eru nú þegar komnar af stað. Við sjáum afleiðingarnar sem koma fram í minnkandi gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið með auknu álagi á krónuna, (Gripið fram í: Ha?) krónan mun lækka. Gengi hennar mun ekki styrkjast, það mun veikjast með tilheyrandi verðbólguáhrifum og hækkunum lána heimila og fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Þetta verður ekki leyst nema menn horfist í augu við raunveruleikann, þá svörtu mynd sem blasir við íslensku þjóðfélagi. Menn verða að hætta að berja hausnum við steininn. Menn verða að hætta að segja þjóðinni að hér sé allt í lagi (Forseti hringir.) þegar staðan er svo alvarleg sem raun ber vitni og hún verður ekki leyst nema skynsamt fólk á Alþingi grípi í taumana, (Forseti hringir.) taki völdin og snúi bökum saman með aðilum vinnumarkaðarins, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands og taki á vandamálunum (Forseti hringir.) sem krefjast þjóðarsáttar.